Meira en 140.000 miðar seldir á EM kvenna 2022
Meira en 140.000 aðgöngumiðar hafa selst á leikina í EM A landsliða kvenna sem fram fer í Englandi á næsta ári og er það umfram það sem búist hafði verið við. Knattspyrnuáhugafólk frá 68 löndum (47% af þeim konur) hafa þegar keypt miða á einn eða fleiri af 31 leikjum keppninnar. Alls verða yfir 700.000 miðar í boði á leiki keppninnar, í ýmsum verðflokkum. Eins og kunnugt er verður íslenska landsliðið á meðal þátttökuliðanna 16.
Þann 9. ágúst næstkomandi lýkur forsölu sem nú er í gangi á miðasöluvef UEFA. Næsti miðasölugluggi verður opnaður þegar dregið verður í riðla fyrir keppnina þannn 28. október næstkomandi og síðasti glugginn verður síðan opnaður um miðjan febrúar 2022.
Keppnin fer sem fyrr segir fram í Englandi - á 10 leikvöngum í 9 borgum víðs vegar um landið. Opnunarleikurinn fer fram á Old Trafford í Manchester 6. júlí og nú þegar hafa selst 53.000 miðar á úrslitaleikinn, sem fer fram á Wembley í Lundúnum 31. júlí.