Breiðablik og FH áfram í aðra umferð forkeppni Sambandsdeildar Evrópu
Mynd - fotbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Breiðablik og FH hafa tryggt sér sæti í annarri umferð forkeppni Sambandsdeildar Evrópu, en Stjarnan er úr leik.
Liðin léku síðari viðureignir sínar í fyrstu umferð í forkeppninnar á fimmtudag, Blikar hér heima en Stjarnan og FH ytra. Breiðablik vann góðan 2-0 sigur gegn Racing Union frá Lúxemborg, samanlagt 5-2, og eru því komnir áfram í næstu umferð. FH fór til Írlands og vann þar frábæran 2-1 sigur gegn Sligo Rovers, samanlagt 3-1, og fylgja Blikum í næstu umferð. Stjarnan gerði 1-1 jafntefli í fyrri leik sínum gegn Bohemians frá Írlandi, en töpuðu síðari leiknum 0-3 í Írlandi og eru því úr leik.
Það verða því þrjú íslensk lið sem taka þátt í annarri umferð forkeppninnar, en Valur færist yfir í Sambandsdeildina eftir að hafa tapað fyrir Dinamo Zagreb í forkeppni Meistaradeildarinnar. Ljóst er hvaða liðum þau mæta og eru andstæðingarnir sterkir.
FH mætir Rosenborg frá Noregi, en fyrri leikur liðanna fer fram á Kaplakrikavelli fimmtudaginn 22. júlí kl. 15:00. Liðin mætast svo aftur í Noregi fimmtudaginn 29. júlí kl. 17:00.
Breiðablik mætir Austria Wien frá Austurríki, en fyrri leikur liðanna fer fram ytra fimmtudaginn 22. júlí kl. 16:00. Liðin mætast svo aftur á Kópavogsvelli fimmtudaginn 29. júlí kl. 19:00.
Valur mætir Bodo/Glimt frá Noregi, þar sem Alfons Sampsted leikur, en fyrri leikur liðanna fer fram á Origo vellinum fimmtudaginn 22. júlí kl. 19:00. Liðin mætast svo aftur ytra fimmtudaginn 29. júlí kl. 16:00.