U16 kvenna - 0-3 tap gegn Danmörku
U16 ára landslið kvenna þurfti að sætta sig við ósigur í lokaleik liðsins á opna Norðurlandamótinu. Íslenska liðið lék gegn Danmörku í fyrr í dag en svo fór að Danir unnu 3-0 sigur.
Íslenska liðið byrjaði vel og átti tvö fín færi á upphafsmínútunum. Það voru hinsvegar Danir sem náðu forystunni á 12. mínútu þegar þær skoruðu eftir hornspyrnu.
Bæði lið áttu stangarskot og íslenska liðið þrjú fín færi áður en að Danir tvöfölduðu forystuna, rétt fyrir hálfleik. Íslenska liðið hafði verið að hóta jöfnunarmarki og það var því einkar svekkjandi að fá á sig annað mark eftir vel útfærða skyndisókn Dananna. Danir bættu svo við þriðja marki sínu snemma í seinni hálfleik. Íslenska liðið gafst ekki upp og reyndi hvað það gat að vinna sig aftur inn í leikinn. Það tókst því miður ekki og niðurstaðan því 3-0 tap.
Að leik loknum æfðu liðin vítaspyrnukeppni en það er gert eftir alla leiki mótsins, óháð úrslitum þeirra. Svo fór að bæði lið skoruðu úr öllum sínum spyrnum og vítakeppnin endaði því 5-5.
Íslenska liðið stóð sig heilt yfir vel á mótinu. Gerði 1-1 jafntefli við Svíþjóð í fyrsta leik, vann 1-0 sigur á Danmörku 2 (U15) í öðrum leik sínum og tapaði svo þeim þriðja, gegn Danmörku U16 í dag. Allir leikmenn Íslands voru að leika sína fyrstu landsleiki og voru landi og þjóð til sóma, bæði innan vallar sem utan. Það var líka virkilega gaman að sjá hversu margir stuðningsmenn fylgdu liðinu og hvöttu til dáða. Framtíðin er björt.