• fös. 09. júl. 2021
  • Landslið
  • U16 kvenna

U16 ára landslið kvenna sigraði Danmörku 2

Íslenska U16 landslið kvenna vann 1-0 sigur á Danmörku 2 á opna Norðurlandamótinu fyrr í dag. 

Þetta var annar leikur Íslands á mótinu en stelpurnar okkar gerðu 1-1 jafntefli við Svíþjóð í fyrsta leik. 

Það var jafnræði með liðunum í fyrri hálfleik og bæði lið fengu tækifæri til að skora. Íslandi tókst það á 25. mínútu en þá skoraði Ísabella Sara Tryggvadóttir með skalla eftir fyrirgjöf Vigdísar Lilju Kristjánsdóttur. 

Vigdís Lilja var ansi nálægt því að bæta við marki stuttu síðar en hún átti skalla í stöng og boltinn dansaði svo eftir marklínunni. 

Danir voru með yfirhöndina í síðari hálfleik en okkar stúlkur lögðu sig allar fram og börðust fyrir sigrinum. 

Á mótinu eru vítaspyrnukeppnir æfðar eftir alla leiki, óháð úrslitum og þar gerðu íslensku leikmennirnir vel og unnu 4-2 sigur. Margrét Rún Stefánsóttir markvörður gerði sér lítið fyrir og varði tvær fyrstu spyrnur Dana. 

Sterkur sigur hjá U16 landsliðinu okkar sem mætir Danmörku 1 í lokaleik opna Norðurlandamótsins næsta mánudag kl.14:30 að íslenskum tíma.