• mán. 21. jún. 2021

2254. fundur stjórnar KSÍ - 10. júní 2021

2254. fundur stjórnar Knattspyrnusambands Íslands var haldinn fimmtudaginn 10. júní 2021 og hófst kl. 16:00. Fundurinn fór fram á skrifstofum KSÍ á Laugardalsvelli.

Mættir: Guðni Bergsson formaður, Gísli Gíslason varaformaður, Borghildur Sigurðardóttir varaformaður, Ásgeir Ásgeirsson, Ingi Sigurðsson, Magnús Gylfason, Ragnhildur Skúladóttir, Valgeir Sigurðsson og Þorsteinn Gunnarsson.

Fjarverandi: Orri Hlöðversson

Mættur framkvæmdastjóri: Klara Bjartmarz sem ritaði fundargerð.


Þetta var gert:

1.  Fundargerð síðasta stjórnarfundar.

1.1  Fundargerð síðasta stjórnarfundar var samþykkt á milli funda á rafrænan hátt af öllum stjórnarmönnum sambandsins.

2.  Fundargerðir nefnda og starfshópa voru lagðar fram til kynningar.

2.1  Mótanefnd 26. maí 2021

3.  Reglugerðir

3.1  Umfjöllun um og afgreiðslu á tillögum um reglugerð KSÍ um félagaskipti, samninga og stöðu leikmanna og félaga (samningsbrot leikmanna) var frestað. Samráðsferli er yfirstandandi en einnig er verið að skoða ný ákvæði í reglugerð varðandi fæðingarorlofsrétt o.fl. Vanda þarf til verka og er svigrúm til áramóta til að klára skylduákvæði FIFA í þessu sambandi.

3.2  Lögð var fram tillaga um breytingu á reglugerð um knattspyrnumót – úrslitakeppni 5. flokks. Stjórn KSÍ samþykkti tillöguna.

Úrslitakeppni í 5. aldursflokki – Greinar 27 og 33

Það sem lagt er til að bætt verði við í reglugerðina er grænmerkt

Það sem lagt er til að falli út úr reglugerðinni er yfirstrikað

27.gr.

5. flokkur karla

27.1.10. Eftir svæðakeppni skal fara fram úrslitakeppni A-, B-, C- og D-liða A-liða um Íslandsmeistaratitilinn skv. ákvörðun mótanefndar KSÍ. og skal hún leikin í tveimur 4 liða riðlum. Um nánari tilhögun fer fram samkvæmt ákvörðun mótanefndar. Úrslitakeppni B liða skal fara fram á sama hátt, en úrslitakeppni C og D liða fer fram samkvæmt ákvörðun mótanefndar.

27.1.11. Sigurvegarar í úrslitariðlunum leika til úrslita viku síðar. KSÍ skal greiða allan ferðakostnað við þessa leiki í keppni A og B liða. Skal hann miðast við 13 manns í hverju liði. Gæta skal hagkvæmni í ferðakostnaði.

33.gr.

5. flokkur kvenna

33.1.10. Eftir svæðakeppni skal fara fram úrslitakeppni A-, B-, C- og D-liða A-liða um Íslandsmeistaratitilinn skv. ákvörðun mótanefndar. og skal hún leikin í tveimur 4 liða riðlum. Um nánari tilhögun fer fram samkvæmt ákvörðun mótanefndar. Úrslitakeppni B liða skal fara fram á sama hátt, en úrslitakeppni C og D liða fer fram samkvæmt ákvörðun mótanefndar.

33.1.11. Sigurvegarar í úrslitariðlunum leika til úrslita viku síðar. KSÍ skal greiða allan ferðakostnað við þessa leiki í keppni A og B liða. Skal hann miðast við 13 manns í hverju liði. Gæta skal hagkvæmni í ferðakostnaði.

4.  Mótamál.

4.1  Valgeir Sigurðsson formaður mótanefndar fór yfir stöðuna í mótamálum. Fimm leikir voru færðir í Pepsi Max deild karla vegna landsleikjagluggans. Óvenjulega margar færslur hafa orðið á leikjum í yngri flokkum það sem af er sumri. Rætt um frestanir á leikjum vegna veðurs. Dregið er í næstu viku í Evrópukeppni félagsliða karla og þá kemur í ljós hvernig júlí mun þróast.

5.  Dómaramál

5.1  Stjórn ræddi um starfsumhverfi dómara en undanfarnar vikur hafa borist of margar fréttir og frásagnir af miður fallegri framkomu í garð knattspyrnudómara. Áreiti og ógnandi tilburðir hafa sést í leikjum og eftir leiki. Dómurum hefur verið hótað vegna ákvarðana þeirra, og það hefur jafnvel gerst að hótanir berist fjölskyldu dómara eftir leik. Víða er það þannig að starfsaðstaða dómara, búningsklefar og önnur aðstaða, er ekki boðleg. Því miður gerist það að gæslumenn, sem eiga að gæta öryggis dómara í leikjum, misnoti aðstöðu sína og nálægð við dómarana og hreyti ónotum í þá, vegna ákvörðunar í leiknum sem viðkomandi mislíkaði.

Stjórn lýsti yfir áhyggjum sínum og samþykkti að senda erindi á aðildafélög sambandsins og brýna þau til dáða varðandi bætt starfsumhverfi dómara. Þá var rætt um að fá fjölmiðla með okkur í lið til að vinna að þessu. Ef takast á fjölga dómurum og bæta starfsumhverfi þeirra verða allir þátttakendur í hreyfingunni að taka höndum saman.

6.  Mannvirkjamál

6.1  Ingi Sigurðsson formaður mannvirkjanefndar greindi frá þeim 42 umsóknum sem bárust í mannvirkjasjóð. Nefndin hefur farið yfir umsóknir á grundvelli skorkorts sjóðsins. Nefndin fundar í næstu viku og undirbýr tillögu til úthlutunar til stjórnar.

7.  Rætt um landsliðsmál

7.1  Guðni Bergsson formaður KSÍ opnaði umræðuna og ræddi um nýafstaðið verkefni A landsliðs karla, en liðið lék þrjá vináttuleiki í glugganum. Minna reyndir leikmenn fengu góð tækifæri. Leikirnir gáfu góð fyrirheit fyrir komandi keppnisleiki. Knattspyrnusamband Mexíkó hefur óskað eftir frekara samstarfi við KSÍ, til dæmis varðandi kvennalandslið þjóðanna og uppbyggingarstarf.

7.2  Ragnhildur Skúladóttir formaður unglinganefndar ræddi um U19 karla sem lék tvo vináttuleiki við Færeyjar í nýafstöðnum landsleikjaglugga. Rætt um nýja sameinaða unglinganefnd og markmið hennar og var stjórn sammála um að með breyttu fyrirkomulagi fylgdu spennandi tækifæri til framfara og áframhaldandi uppbyggingar.

7.3  Borghildur Sigurðardóttir formaður landsliðsnefndar kvenna ræddi um leikina sem framundan eru við Íra, en leikið er á Laugardalsvelli 11. og 15. júní.

8.  Önnur mál

8.1  Ingi Sigurðsson tók til máls og ræddi um leyfiskerfi KSÍ og þær kröfur sem gerðar eru í kerfinu.

8.2  Guðni Bergsson formaður KSÍ upplýsti stjórn um að í næstu viku færi fram aukaaðalfundur Þjóðarleikvangs ehf.

8.3  Rætt um bakhjarla KSÍ. Undirbúningur samnings við sjötta og síðasta bakhjarl KSÍ gengur vel. Þá var einnig rætt um alþjóðlegan samstarfsaðila en alltaf eru einhverjar þreifingar um slíkt þó að ekkert sé í hendi.

8.4  Stjórn samþykkti að skipa Jóhann Kristinn Gunnarsson í starfshóp um kvennaknattspyrnu. Rætt um skipan í aðra starfshópa.

8.5  Þorsteinn Gunnarsson upplýsti stjórn um Molaverkefnið, en Moli er lagður af stað í sína árlegu útbreiðsluferð.

8.6  Ragnhildur Skúladóttir formaður fræðslunefndar KSÍ greindi stjórn frá því að í hálfleik á landsleik Íslands og Írlands, 11. júní verður útskrift þjálfara sem eru að ljúka KSÍ (UEFA) A gráðu.

Fleira var ekki bókað og var fundi slitið kl. 18:30.