Tveggja marka sigur gegn Írum
Ísland vann tveggja marka sigur gegn Írum í síðari vináttuleik þjóðanna, en leikið var á Laugardalsvelli.
Fyrri hálfleikur var nokkuð jafn, þó Ísland hafi verið ívið betra. Besta færi fyrri hálfleiks fékk Berglind Björg Þorvaldsdóttir, en skot hennar úr teignum var vel varið. Fyrir utan skot Berglindar var lítið um opin færi, þó nokkur hætta hafi ávallt skapast eftir löng innköst Sveindísar Jane Jónsdóttur. Staðan jöfn í hálfleik.
Íslenska liðið gerði tvær breytingar í hálfleik. Guðrún Arnardóttir og Andrea Rán Hauksdóttir komu inn fyrir Alexöndru Jóhannsdóttur og Ingibjörgu Sigurðardóttur. Ísland byrjaði síðari hálfleik vel og Sveindís Jane var nálægt því að koma liðinu yfir eftir þrjár mínútur, en skot hennar var varið. Nokkrum mínútum síðar komst Ísland yfir. Andrea Rán átti þá góða sendingu fyrir á Berglindi og hún kom boltanum yfir marklínuna eftir baráttu við írska markvörðinn. Staðan orðin 1-0!
Þegar 20 mínútur voru eftir af leiknum komu þær Berglind Rós Ágústsdóttir og Agla María Albertsdóttir inn á fyrir Sveindísi Jane Jónsdóttur og Dagnýju Brynjarsdóttur. Ísland hélt áfram að vera hættulegri aðilinn og Berglind Björg var nálægt því að koma boltanum á markið eftir fyrirgjöf frá Karólínu Leu Vilhjálmsdóttur, en henni tókst ekki að ná í boltann. Stuttu síðar komu Karitas Tómasdóttir og Elín Metta Jensen inn á fyrir Berglindi Björgu og Gunnhildi Yrsu.
Karólína Lea skoraði annað mark leiksins þegar tíu mínútur voru eftir af síðari hálfleik. Hún fékk þá boltann fyrir utan teig og gott skot hennar endaði í netinu, glæsilegt mark og Ísland komið í 2-0. Írar reyndu hvað þeir gátu til að minnka muninn, en Ísland varðist vel og 2-0 sigur staðreynd.
Ísland vann því báða leikina gegn Írum, þann fyrri 3-2 og síðari 2-0.