Þrjú mörk í fyrri hálfleik í sigri Íslands gegn Írum
Ísland vann 3-2 sigur gegn Írlandi í fyrri vináttuleik þjóðanna, en leikið var á Laugardalsvelli.
Íslenska liðið hóf leikinn af miklu krafti og var komið tveimur mörkum yfir eftir aðeins 14 mínútna leik. Agla María skoraði fyrsta mark leiksins á 11. mínútu þegar hún lyfti boltanum frábærlega framhjá markverði Írlands. Aðeins þremur mínútum seinna skoraði Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir og kom Íslandi í 2-0. Frábær byrjun hjá stelpunum.
Leikurinn róaðist nokkuð eftir þessa frábæru byrjun, en Ísland var þó ávallt sterkari aðilinn. Sex mínútum fyrir lok fyrri hálfleiks átti Alexandra Jóhannsdóttir frábært skot fyrir utan teig sem endaði í stönginni. Að lokum endaði boltinn hjá Dagnýju Brynjarsdóttur og kom hún honum auðveldlega í netið. Þrítugasta mark Dagnýjar fyrir landsliðið staðreynd.
Írland byrjaði síðari hálfleik vel og minnkaði muninn strax eftir fjögurra mínútna leik, en þar var að verki Heather Payne. Síðari hálfleikurinn var nokkuð jafn, en fátt um færi. Írar minnkuðu muninn í uppbótartíma með marki frá Amber Barrett.
3-2 sigur Íslands staðreynd, en liðin mætast aftur þriðjudaginn 15. ágúst kl. 17:00 á Laugardalsvelli.