Úrskurður í máli nr. 4/2021 - Kröfum knattspyrnudeildar Víkings R. hafnað
Aga- og úrskurðarnefnd KSÍ hefur kveðið upp úrskurð sinn í máli nr. 4/2021. Hefur aga- og úrskurðarnefnd hafnað kröfum knattspyrnudeildar Víkings R. um að leikur FH og Víkings R. í Mjólkurbikarkeppni kvenna þann 17. maí 2021 verði úrskurðaður FH tapaður 3-0.
Úr niðurstöðu í máli nr. 1/2021:
„Af orðalagi bráðabirgðaákvæðis 29. greinar verður ráðið að heimilt sé að nota þrjár leikstöðvanir í hverjum leik til leikmannaskipta. Verður að túlka ákvæðið þannig að átt sé við þrjár leikstöðvanir í heild sem hvort lið hefur tækifæri á að nýta til leikmannaskipta óháð því hvort liðið óskar eftir leikstöðvun. Samtals hjá báðum liðum geta leikstöðvanir í hverjum leik því að hámarki verið sex en þar fyrir utan megi nýta leikhléið til skiptinga.“
„Eins og mál þetta er vaxið liggur fyrir að óvissa hafi skapast um það í lok leiks FH og Víkings hvort liði FH væri heimilt að stöðva leik til að skipta inn á fimmta varamanni sínum í leiknum. Kærði hafði á þeim tíma notað þrjár leikstöðvanir til leikmannaskipta. Í greinargerð er vísað til þess að þjálfarar FH ásamt aðstoðardómara og aðaldómara umrædds leiks hafi rætt saman um hvort FH væri heimilt að gera skiptinguna og hafi ákvörðunin verið sú að skiptingin væri heimil. Vitnisburður sem borist hefur til nefndarinnar frá aðstoðardómara í leiknum staðfestir þá atburðarrás. Samkvæmt grein 5.2. knattspyrnulaganna ber dómara að gera sitt besta til þess að taka ákvarðanir í samræmi við knattspyrnulögin og anda leiksins og þær munu byggjast á mati dómarans á aðstæðum og því svigrúmi sem rammi laganna veitir honum. Samkvæmt 6. gr. knattspyrnulaganna er hlutverk aðstoðardómara m.a. að fylgjast með því að leikmannaskipti fari fram með réttum hætti. Reynist ákvörðun aðaldómara eða aðstoðardómara röng, eftir að leikur er hafinn að nýju, verður þrátt fyrir það ganga út frá því að ákvörðun dómarans sé endanleg.
Með vísan til framangreinds og með vísan til þess að mistök dómara við stjórn leikmannaskiptinga höfðu ekki áhrif á úrslit leiks að mati aga- og úrskurðarnefndar telur nefndin að ekki sé unnt að skýra afleiðingar brots á þann hátt sem kærði telur að beri að gera með því að ógilda úrslit leiksins.
Af þeim sökum ber að taka til greina kröfu kærða um sýknu í málinu og úrslit leiksins látin standa óbreytt.“
Úrskurður í máli nr. 4/2021.