Úrskurður um fimm leikja bann og bann frá velli felldur úr gildi og sekt Magna felld úr gildi
Áfrýjunardómstóll KSÍ hefur kveðið upp dóm sinn í máli nr. 1/2021. Hefur dómurinn fellt úr gildi úrskurð aga- og úrskurðarnefndar í máli nr. 1/2021 þar sem leikmanni var gert að sæta leikbanni í fimm leiki í keppnum á vegum KSÍ og banni frá Dalvíkurvelli á meðan bannið varir. Þá var sekt knattspyrnudeildar Magna skv. úrskurðinum einnig felld úr gildi.Úr dómsniðurstöðu í máli nr. 1/2021:
„Í hinum áfrýjaða úrskurði byggir niðurstaða aga- og úrskurðarnefndar m.a. á skýrslu dómara þar sem atvikum er lýst sem dómari verður ekki vitni að. Í skýrslunni eru leiddar líkur að því leikmaður Magna hafi sagt eitthvað rasískt við leikmann Aftureldingar án þess þó að fyrir liggi með óyggjandi hætti hver meint ummæli hafi í raun verið. Þá er framkoma leikmannsins hörmuð í greinargerð sem barst frá knattspyrnudeild Magna án þess að vitnað sé til brotlegra ummæla leikmanns auk þess sem fram kemur að forráðamenn knattspyrnudeildar Magna, er rita greinargerðina, voru ekki á umræddum leik og urðu því ekki vitni að atvikinu. Leikmaðurinn hefur sjálfur neitað því að hafa látið umrædd ummæli falla í þeim orðaskiptum er urðu á milli hans og leikmanns Aftureldingar þó hann viðurkenni óíþróttamannslega framkomu af sinni hálfu.
Það er mat dómsins að ekki liggi fyrir í gögnum málsins óyggjandi staðfesting á því hvaða orð leikmaður Magna lét falla við leikmann Aftureldingar enda kemur fram í skýrslu dómara að dómari varð ekki vitni að þeim orðaskiptum. Hefur dómari eftir þjálfara Aftureldingar að einhver rasísk ummæli hafi verið látin falla án þess að staðfest sé með skýrum hætti hvaða orð það voru. Dómurinn byggir sönnunarmat sitt á skýrslu dómara og öðrum þeim gögnum sem fram hafa verið lögð í málinu og með hliðsjón af þeim telur dómurinn ekki fullnægjandi sannað að leikmaðurinn hafi viðhaft þau ummæli sem vísað er til í skýrslu dómara og verður hann því ekki talinn hafa gerst brotlegur við gr. 15.1. í reglugerð KSÍ um aga- og úrskurðarmál.
Málinu var ekki áfrýjað af hálfu knattspyrnudeildar Magna en heimildin til að beita félagið sektum skv. gr. 15.1. í reglugerð KSÍ um aga- og úrskurðarmál er afleidd af broti leikmanns samkvæmt greininni. Þar sem ósannað er að leikmaðurinn hafi gerst brotlegur við gr. 15.1. í reglugerð um aga- og úrskurðarmál skal sekt knattspyrnudeildar Magna á grundvelli hins áfrýjaða úrskurðar felld úr gildi.“
Dómur áfrýjunardómstóls í máli nr. 1/2021.