300 áhorfendur leyfðir í hverju rými
Ný reglugerð um takmörkun á samkomum tekur gildi í dag, 25. maí. Helstu breytingar sem snerta knattspyrnuhreyfinguna eru þær að 150 manns mega nú koma saman á æfingum og í keppni, 300 manns mega vera í hverju rými í áhorfendastúkum (hámark 3 rými í hverri byggingu), og sala á veitingum er nú heimil í hálfleik með skilyrðum. Reglur KSÍ um sóttvarnir hafa verið uppfærðar til samræmis við þær breytingar sem nú taka gildi.
Úr reglum KSÍ:
Til samræmis við 3. gr, reglugerðar heilbrigðisráðherra nr. 587/2021 frá 21. maí 2021 er heimilt að hafa að hámarki 300 áhorfendur í einu sótthólfi á íþróttaviðburðum og að hámarki þrjú sótthólf í hverri byggingu, að uppfylltum eftirfarandi skilyrðum:
- Allir gestir séu sitjandi í númeruðum sætum og ekki andspænis hver öðrum.
- Allir gestir séu í númeruðum sætum og skráðir, a.m.k. nafn, símanúmer og kennitala. Skráin skal varðveitt í tvær vikur og eytt að þeim tíma loknum.
- Allir gestir noti andlitsgrímu (sem hylji nef og munn) nema þegar neytt er drykkjar- eða neysluvöru.
- Tryggt sé að fjarlægð milli ótengdra gesta sé a.m.k. 1 metri á alla vegu. Á við börn og fullorðna.
- Komið verði eins og kostur er í veg fyrir frekari hópamyndun fyrir viðburði, í hléi og eftir viðburð.
- Skipuleggjendum viðburða er skylt að tryggja þegar áhorfendur eru ekki í sætum, svo sem fyrir og eftir viðburð og í hléi, að ekki komi fleiri saman en 150 manns og að 2 metra nálægðartakmörk milli ótengdra aðila séu virt.
Ef ekki er hægt að uppfylla eitthvert ofangreindra skilyrða gildir 150 manna hámark í rými.
Áhorfendasvæði skal vera aðskilið keppnissvæðinu og engin blöndun á áhorfendum og þátttakendum er heimil.