Ísland í sterkum riðli í undankeppni FIFA eNations Cup
Íslenska landsliðið í eFótbolta er í erfiðum riðli í undankeppni FIFA eNations Cup.
Ísland er í riðli með Póllandi, Englandi, Eistlandi, Belgíu, Ísrael og Króatíu og er ljóst að riðillinn er sterkur, en þó möguleikar á góðum úrslitum. Íslenska liðið er talið eitt af fimmtán bestu liðunum í Evrópu í dag. Englendingar eru eitt allra sterkasta liðið í heiminum og eru þeir með tvo firnasterka leikmenn í liði sínu, þá Tekkz og Hashtag Tom. Tekkz hefur unnið ensku deildina í eFótbolta með Liverpool, er margfaldur heimsmeistari og vann Meistaradeildina í eFótbolta síðastliðið haust. Það verður áhugavert að sjá strákana berjast við hann.
Leikirnir fara fram 20. og 21. maí og verða þeir allir í beinni útsendingu á Stöð 2 eSport. Fjögur lið komast upp úr riðlinum í næstu umferð sem fer fram dagana 21. og 22. maí. Strákarnir léku á dögunum vináttuleiki gegn Eistlandi og Finnlandi, en þeir leikir voru liður í undirbúningi liðsins fyrir undankeppnina.
Síðari viðureignin, gegn Eistlandi, gekk enn betur og unnu strákarnir tvo leiki, gerðu eitt jafntefli og töpuðu einum. Aron Þormar vann sína viðureign 6-1, Bjarki Már vann 4-1, Tindur Örvar tapaði 1-4 og Alexander Aron Hannesson gerði 2-2 jafntefli. Stefnt er að því að fleiri vináttuleikir verði leiknir fyrir þann tíma og verður sagt frá þeim þegar ljóst er hvaða liðum Ísland mætir.