UEFA kynnir nýtt skipulag Meistaradeildar kvenna
Mynd - fotbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
UEFA hefur staðfest breytingar á Meistaradeild kvenna og taka þær gildi í sumar.
Með hinu nýja skipulagi verður aukið fé í boði fyrir þátttakendur keppninnar og dreifast 24 milljónir evra á liðin eftir árangri þeirra, sem er rúmlega fjórum sinnum meira en hefur verið. Þessa miklu aukningu má skýra með miðstýringu auglýsingasamninga og sjónvarpsréttinda frá og með riðlakeppni keppninnar. Ásamt því mun keppnin fá fé úr Meistaradeild karla til styrkingar kvennaknattspyrnu.
UEFA hefur einnig tekið þá ákvörðun að um 23% af þessum 24 milljónum evra verði notaðar til að efla kvennastarf hjá félögum sem taka ekki þátt í Meistaradeild kvenna, en leika í efstu deild í sínu landi með þátttökuliðum í riðlakeppni Meistaradeildinnar.
Breiðablik og Valur taka þátt í Meistaradeild kvenna í sumar, en það er í fyrsta sinn sem tvö íslensk lið taka þátt í keppninni. Til að komast í hina 16 liða riðlakeppni þurfa Breiðablik og Valur að fara í gegnum tvö stig forkeppninnar, en þau verða leikin í ágúst og september.