• mið. 21. apr. 2021
  • Lög og reglugerðir
  • Mótamál
  • COVID-19

Ný reglugerð um viðmiðanir og sértækar ráðstafanir vegna heimsfaraldurs kórónaveiru

Á fundi stjórnar KSÍ 15. apríl sl. var samþykkt ný reglugerð KSÍ um viðmiðanir og sértækar ráðstafanir vegna heimsfaraldurs kórónaveiru.  Reglugerðin hefur verið kynnt aðildarfélögum með dreifibréfi nr. 3/2021.

Reglugerð þessi var unnin af laga- og leikreglnanefnd KSÍ í framhaldi af tillögu frá mótanefnd KSÍ fyrir keppnistímabilið 2021. Reglugerðin er að mestu samhljóða reglugerð um sama efni sem var í gildi fyrir keppnistímabilið 2020. Var reglugerðin sett með það að markmiði að vera undirbúin fyrir hugsanleg skakkaföll vegna Covid-19 veirunnar en í reglugerðinni er fjallað um hvernig haga skuli mótum í því tilviki að ekki verði hægt að ljúka þeim á tilsettum tíma.

Markmið reglugerðarinnar er sem fyrr að félögum sé ljóst til hvaða aðgerða verði gripið ef ekki er hægt að ljúka mótum vegna Covid-19 veirunnar. Jafnframt er reglugerðinni ætlað að tryggja gegnsæi og fyrirsjáanleika í mótahaldi eins og kostur er.

Nokkur helstu atriði reglnanna eru eftirfarandi:

1. Reglurnar eru varúðarráðstöfun ef veruleg röskun verður á framkvæmd Íslandsmóts og bikarkeppni meistaraflokka vegna Covid-19.

2. Félög geta fengið frestun á leik eða leikjum ef:

I. Að minnst fimm leikmenn eru í fyrirskipaðri einangrun eða sóttkví.

  1. II. Að viðkomandi leikmenn hafi verið í byrjunarliði í öðrum af síðustu tveimur leikjum liðsins.

3. Frestun á leikjum vegna framangreinds hefur augljós áhrif á röðun leikja, raskar leikjum í einstökum umferðum og leiðir til mismunandi álags á lið með mismunandi bili milli leikja.

4. Íslandsmeistarar í einstökum deildum verða ekki krýndir ef ekki tekst að leika 2/3 hluta leikja í viðkomandi deild.

5. Sé móti aflýst í meistaraflokki karla en 2/3 hluti heildarleikja í efstu deild, 1. deild, 2. deild og 3. deild hafa verið leiknir skv. mótaskrá þá ræður meðalfjöldi stiga og markahlutfall hvers liðs fyrir sig í hverjum leik sem það hefur lokið á þeim degi þegar móti er aflýst, endanlegri niðurröðun. Telst Íslandsmótinu þar með lokið. Skulu þá Íslandsmeistarar krýndir í hverri deild og lið færast á milli deilda með sama hætti og ef allir leikir í þessum deildum á Íslandsmóti hefðu verið leiknir. Takist ekki að ljúka 2/3 hluta heildarleikja í efstu deild, 1. deild, 2. deild og 3. deild í Íslandsmótum karla skulu engin lið færast milli deilda. Í því tilviki verður sama skipan liða í hverri deild við upphaf keppnistímabilsins 2022 og var keppnistímabilið 2021.

6. Sé móti aflýst í meistaraflokki kvenna en 2/3 hluti heildarleikja í efstu deild, 1. deild og 2. deild hafa verið leiknir skv. mótaskrá þá ræður meðalfjöldi stiga og markahlutfall hvers liðs fyrir sig í hverjum leik sem það hefur lokið á þeim degi þegar móti er aflýst, endanlegri niðurröðun. Telst Íslandsmótinu þar með lokið. Skulu þá Íslandsmeistarar krýndir í hverri deild og lið færast á milli deilda með sama hætti og ef allir leikir í þessum deildum á Íslandsmóti hefðu verið leiknir. Takist ekki að ljúka 2/3 hluta heildarleikja í efstu deild, 1. deild og 2. deild í Íslandsmótum kvenna skulu engin lið færast milli deilda. Í því tilviki verður sama skipan liða í hverri deild við upphaf keppnistímabilsins 2022 og var keppnistímabilið 2021.

7. Verði ekki unnt að ljúka úrslitakeppni 4. deildar karla, flyst ekkert lið upp í 3. deild og ekkert lið fellur úr henni.

8. Heimilt verður að lengja keppnistímabil ársins 2021 ef umtalsverðar líkur eru að ljúka megi keppni í einstökum deildum – þó aldrei lengur en til 1. desember.

Skoða dreifibréf