Tveir starfsnemar hjá KSÍ
Guðmundur Hólmar Helgason og Orri Rafn Sigurðarson hafa verið í starfsnámi hjá KSÍ á síðustu vikum og mánuðum og unnið að afmörkuðum verkefnum fyrir KSÍ sem hluta af sínu námi.
Guðmundur Hólmar Helgason meistaranemi í lögfræði við Háskólann í Reykjavík hefur lokið starfsnámi sínu hjá KSÍ. Þetta er í fyrsta skipti sem KSÍ hefur tekið á móti laganema í starfsnám en það er tilkomið vegna samstarfssamnings sem KSÍ gerði við lagadeild Háskólans í Reykjavík nýverið. Samkvæmt samningnum mun KSÍ taka á móti einum starfsnema á hverju ári frá lagadeild HR. Guðmundur Hólmar hóf starfsnámið í febrúar á þessu ári og vann, í nánu samráði við starfsfólk, að gerð vinnsluskrár vegna söfnunar KSÍ á persónugögnum en um leið vann hann að drögum að nýrri persónuverndarstefnu KSÍ.
Orri Rafn Sigurðarson nemur íþróttastjórnun við danskan háskóla og hefur hann unnið verkefni fyrir KSÍ á vorönn. Verkefni Orra hafa m.a. snúið að málum tengdum streymi knattspyrnufélaga á Íslandi og skipulagi samfélagsmiðla knattspyrnusambanda i Evrópu í samanburði við samfélagsmiðla KSÍ. Verkefnin hefur Orri unnið sem hluta af sínum verkefnum í náminu og munu þau og rannsóknarvinnan nýtast KSÍ mjög vel.
Starfsnemarnir Orri Rafn (vinstra megin) og Guðmundur Hólmar (hægra megin).