Stefna KSÍ í samfélagslegum verkefnum
Samfélagsleg verkefni og þátttaka í þeim er hluti af stefnumótun KSÍ fyrir árin 2018-2022. KSÍ hefur nú smíðað sína fyrstu opinbera stefnu um samfélagsleg verkefni.
Í samræmi við stefnuna velur KSÍ að hámarki tvö samfélagsleg verkefni á hverju ári og einbeitir sér að þeim. Gerður er samningur við tiltekna aðila um afmörkuð verkefni, sem getur þá staðið yfir í eitt ár eða lengur, eftir samkomulagi og umfangi verkefnis. Með þessari nálgun vill KSÍ einbeita sér að tilteknum verkefnum í tiltekinn tíma, og leggja kraft í þau til að þátttakan vegi sem þyngst og geri viðkomandi verkefni og samfélaginu raunverulegt og áþreifanlegt gagn.
Við öflun og afmörkun verkefna er sérstaklega horft til tengingar við knattspyrnu og jafnframt er litið til heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna (UN Sustainable Development Goals) og regluverks og stuðningsnets UEFA (UEFA HatTrick V).
Framtíðarsýn KSÍ er að knattspyrnustarfið, með tengingu við KSÍ, landslið, aðildarfélög eða knattspyrnuhreyfinguna í heild, verði talið álitlegur kostur til að koma samfélagslega mikilvægum verkefnum sem best á framfæri.
Klara Bjartmarz framkvæmdastjóri KSÍ í inngangi stefnunnar:
Knattspyrnan nær til margra og það er eftir því tekið sem gerist í knattspyrnuhreyfingunni. Við erum stór hluti af enn stærra samfélagi og við getum haft jákvæð áhrif á það samfélag. KSÍ hefur smíðað sína fyrstu opinberu stefnu um samfélagsleg verkefni, þar sem nálgun KSÍ á slík verkefni er lýst. Þessi stefna hefur beina tengingu við heildarstefnumótun KSÍ fyrir árin 2018-2022.
KSÍ hefur reyndar unnið markvisst eftir þessari nálgun frá árinu 2018 og meðal verkefna má nefna Parkinson/Parkinsdóttir verkefni KSÍ sem hlaut Hvatningarverðlaun Öryrkjabandalags Íslands 2018, Samferða með KSÍ sem ætlað var að vekja athygli á góðgerðarsamtökunum Samferða og almennu mikilvægi góðgerðarsamtaka í íslensku samfélagi, auk eigin verkefna KSÍ - Ekki harka af þér höfuðhögg og Litblinda í fótbolta - sem bæði vöktu mikla athygli. Framundan eru m.a. verkefni sem snúa að andlegri heilsu og verkefni sem ætlað er að hvetja konur til þátttöku í knattspyrnu (sem þjálfarar, dómarar, starfsmenn félaga og sjálfboðaliðar), og verkefni tengt mismunun er á teikniborðinu.
Mikilvægasta markmið KSÍ með þátttöku í samfélagslegum verkefnum er að gera raunverulegt og áþreifanlegt gagn í samfélaginu. Það er okkar leiðarljós, og sú stefna sem við höfum markað í samfélagslegum verkefnum endurspeglar það.