Strákarnir mæta Dönum á EM 2021 á sunnudag
Ísland leikur annan leik sinn á EM 2021 í Györ í Ungverjalandi á sunnudag þegar liðið mætir Danmörku.
Danir unnur fyrsta leik sinn í riðlinum, 1-0, þegar þeir mættu Frakklandi. Ísland tapaði hins vegar sínum leik 1-4 gegn Rússlandi.
Leikurinn fer fram á Gyirmóti Stadion í Györ eins og aðrir leikir íslenska liðsins á mótinu. Hann hefst kl. 13:00 að íslenskum tíma og verður í beinni útsendingu á RÚV.
Liðin mættust einnig í fyrra skiptið sem Ísland komst í lokakeppni EM í þessum aldursflokki. Það var árið 2011 og vann Ísland þá frábæran 3-1 sigur og skoruðu Kolbeinn Sigþórsson, Birkir Bjarnason og Hjörtur Logi Valgarðsson mörk Íslands. Þetta verður í tólfta sinn sem liðin mætast í þessum aldursflokki. Ísland hefur unnið þrjá leiki, síðast árið 2019, fimm endað með jafntefli og Danir unnið þrjá.