Öllum leikjum frestað um óákveðinn tíma
Mótanefnd KSÍ hefur staðfest með erindi til aðildarfélaga að öllum leikjum Lengjubikarsins og Reykjavíkurmóta/Faxaflóamóta yngri flokka hafi verið frestað um óákveðinn tíma, vegna þeirra samkomutakmarkana sem settar hafa verið af heilbrigðisyfirvöldum og gilda til 15. apríl. Keppni í knattspyrnu er óheimil meðan á þessum samkomutakmörkunum stendur. Í erindi mótanefndar til félaga segir jafnfram að framhald Lengjubikarsins 2021 verði metið á næstu dögum, en ljóst er að staða mála mun hafa áhrif á upphaf sumarmóta - Mjólkurbikar karla átti t.a.m. að hefjast 8. apríl næstkomandi. Mótanefnd KSÍ metur nú stöðuna sem upp er komin og verða frekari upplýsingar sendur út síðar.
Æfingar félaga
Á fundi ÍSÍ og sérsambanda fyrr í dag, fimmtudag, kom fram að miðað við reglugerð heilbrigðisráðherra eru æfingar heimilar svo fremi sem ákvæði um nándarmörk (2m), hámarksfjölda (hámark 10 í hverju sótthólfi) og um engan sameiginlegan búnað/snertifleti séu virt.
Rétt er að árétta að miðað við svör ráðuneytisins er bolti sameiginlegur búnaður og því er ekki heimilt að nota sameiginlegan bolta m.v. núverandi stöðu. Styrktarþjálfun í eigin sal er heimil ef þau ákvæði sem hér eru nefnd að framan eru virt.