• þri. 23. mar. 2021

2251. fundur stjórnar KSÍ - 18. mars 2021

2251. fundur stjórnar Knattspyrnusambands Íslands var haldinn fimmtudaginn 18. mars 2021 og hófst kl. 16:00. Fundurinn fór fram á skrifstofum KSÍ á Laugardalsvelli.


Mættir: Guðni Bergsson formaður, Gísli Gíslason (yfirgaf fundinn kl. 17:30), Borghildur Sigurðardóttir, Ásgeir Ásgeirsson, Ingi Sigurðsson (yfirgaf fundinn kl. 17:40), Magnús Gylfason, Orri Hlöðversson, Ragnhildur Skúladóttir, Valgeir Sigurðsson og Þorsteinn Gunnarsson.

Mættur framkvæmdastjóri: Klara Bjartmarz sem ritaði fundargerð.


Þetta var gert:

Orri Hlöðversson formaður ÍTF var boðinn velkominn á sinn fyrsta stjórnarfund.

1. Fundargerð síðasta stjórnarfundar

1.1 Fundargerð síðasta stjórnarfundar var samþykkt á milli funda á rafrænan hátt af öllum stjórnarmönnum sambandsins.

2. Fundargerðir nefnda og starfshópa voru lagðar fram til kynningar.

2.1 Fundargerð mannvirkjanefndar 9. mars 2021.

3. Skipan í embætti og nefndir

3.1 Skipan í embætti. Tillaga Guðna Bergssonar formanns um að Gísli Gíslason verði fyrsti varaformaður og Borghildur Sigurðardóttir annar formaður var samþykkt.

3.2 Skipan jafnréttisfulltrúa í samræmi við jafnréttisstefnu KSÍ, samþykkta á stjórnarfundi 18. febrúar 2021. Tillaga Guðna Bergssonar formanns um að Þorsteinn Gunnarsson verði fulltrúi stjórnar og Klara Bjartmarz fulltrúi skrifstofu var samþykkt.

3.3 Rætt um skipan í nefndir og þau sjónarmið sem þarf að horfa í þegar skipað er í nefndir sambandsins. Frekari umræðu frestað til næsta fundar.

4. Ársþing

4.1 Rætt um framkvæmd ársþingsins. Framkvæmdin gekk mjög vel og starfsfólk sambandsins á hrós skilið fyrir sinn þátt. Búast má við að ýmis lærdómur frá þinginu nýtist til framtíðar, sbr. til dæmis rafrænt kosningarkerfi.

4.2 Drög að þinggerð voru lögð fram til kynningar.

4.3 Rætt um tillögur sem flytja þarf í ferli:

Nr. 7

  • Flytjandi:  Stjórn KSÍ
  • Heiti og afgreiðsla:  Lyfjareglur, tillaga samþykkt á þingi
  • Ferli:  Samþykkt ársþings hefur verið send til ÍSÍ til staðfestingar

Nr. 8

  • Flytjandi:  Stjórn KSÍ
  • Heiti og afgreiðsla:  Efsta deild karla, tillaga felld
  • Ferli:  Málið er í skoðun

Nr. 9

  • Flytjandi:  Fram
  • Heiti og afgreiðsla:  Fjölgun liða í efstu deild karla, tillaga felld
  • Ferli:  Málið er í skoðun

Nr. 10

  • Flytjandi:  Fylkir
  • Heiti og afgreiðsla:  10 lið í efstu deild karla og 14 lið ásamt umspili í 1. deild karla – tillaga dregin til baka
  • -

Nr. 11

  • Flytjandi:  ÍA
  • Heiti og afgreiðsla:  12 lið og þrjár umferðir í efstu deild karla – tillaga dregin til baka
  • -

Nr. 12

  • Flytjandi:  ÍA
  • Heiti og afgreiðsla:  Skiptingar í 2. og 3. aldursflokki – tillagan var samþykkt
  • Ferli:  Málið er í vinnslu hjá lögfræðingi KSÍ

Nr. 13

  • Flytjandi:  Fram
  • Heiti og afgreiðsla:  Leikbann vegna uppsafnaðra gulra spjalda og áfrýjun leikbanns – breytingartillaga um að vísa málinu til stjórnar samþykkt
  • Ferli:  Málið er í vinnslu hjá laga- og leikreglanefnd

Nr. 14

  • Flytjandi:  Stjórn KSÍ
  • Heiti og afgreiðsla:  Fyrirkomulag deilda í mfl. karla og kvenna og ný bikarkeppni félaga í neðri deildum – samþykkt
  • Ferli:  Skipa þarf starfshópa í málinu, frestað.

Nr. 15

  • Flytjandi:  ÍA
  • Heiti og afgreiðsla:  Þróunarsjóður – breytingartillaga um að visa málinu til stjórnar samþykkt
  • Ferli:  Rýna þarf málið betur og kalla eftir umsögn t.d. knattspyrnusviðs. Skoða þarf mögulega tengingu við mannvirkasjóð.

5. Landsliðsmál. Rætt um undirbúning fyrir komandi ferðir A og U21 landsliða karla sem gengur vel miðað við erfiðar aðstæður.

6. Rætt um leyfismál og gaf framkvæmdastjóri KSÍ, Klara Bjartmarz, stjórn skýrslu um stöðu leyfismála. Leyfisráð KSÍ hefur haldið sína árlegu tvo fundi í leyfisferlinu fyrir tímabilið 2021. Fyrri fundur leyfisráðs fór fram 10. mars. sl. og síðari fundur ráðsins var haldinn miðvikudaginn 17. mars. Öll 34 félögin í efstu deild karla, efstu deild kvenna og 1. deild karla hafa fengið umsóknir sínar um þátttökuleyfi árið 2021 samþykkt hjá leyfisráði KSÍ, tvö þeirra með fyrirvörum um frekari gagnaskil í marsmánuði. Umsóknir félaga um þátttökuleyfi 2021 eru samþykktar af leyfisráði með fyrirvara um afgreiðslu stjórnar KSÍ á tillögum mannvirkjanefndar um vallarleyfi fyrir keppnistímabilið 2021.

7. Valgeir Sigurðsson formaður mótanefndar KSÍ upplýsti stjórn um stöðu mótamála.

7.1 Drög að niðurröðun allra móta er tilbúin.

7.2 Rætt um Meistarakeppni KSÍ í karla og kvennaflokki en mótanefnd hefur stillt þessum leikjum upp þannig að Íslandsmeistarar mæta liðinu í 2. sæti Íslandsmóta þar sem bikarkeppnum meistaraflokka lauk ekki. Stjórn er sammála þessari málsmeðferð.

7.3 Ljúka þarf verðlaunaafhendingum vegna 2020 um leið og sóttvarnarreglur leyfa.

7.4 Huga þarf að nýrri Covid reglugerð fyrir komandi tímabil.

8. Klara Bjartmarz framkvæmdastjóri kynnti stjórn breytingar á knattspyrnulögunum og tillögu dómaranefndar um að breytingarnar taki gildi á Íslandi við upphafi Bikarkeppni KSÍ 2021. Stjórn samþykkti tillögu dómaranefndar um gildistöku breytinganna.

9. Ingi Sigurðsson formaður mannvirkjanefndar kynnti stjórn tillögu mannvirkjanefndar um að Sauðárkróksvöllur (gervigras) fái fullgilt vallarleyfi sem aðalvöllur en áður hafði völlurinn fengið vallarleyfi sem varavöllur. Stjórn samþykkti tillögu mannvirkjanefndar um vallarleyfi Sauðárkróksvallar (gervigrass).

10. Guðni Bergsson formaður KSÍ upplýsti stjórn um stöðuna á undirbúningsvinnu vegna nýs þjóðarleikvangs.

11. Rætt um stefnumótun KSÍ. Stefnumótun KSÍ 2018-2022 var samþykkt 13. apríl 2018 og huga þarf að endurmati og undirbúningi fyrir næsta „hring“. Gert er ráð fyrir að endurmat og undirbúningur taki allt að ári. Rætt um að stofna starfshóp með fulltrúum stjórnar (stefnumörkun) og starfsmanna (framkvæmdin). Frekari umræðu og ákvörðun um málið frestað.

12. Önnur mál

12.1 Rætt um mikilvægt framlag sjálfboðaliða sem létu af störfum í tengslum við síðasta ársþing. Margir þeirra eiga að baki áratuga sjálfboðaliðastarf og er nauðsynlegt að færa þeim viðeigandi þakkir við gott tækifæri.

12.2 Lagt fram minnisblað um umsókn Norðurlandanna um HM kvenna 2027.

12.3 Rætt um Molaverkefnið 2021. Starfshópur um útbreiðslumál er að skoða hvernig hægt sé að þróa verkefnið áfram.

Fleira var ekki bókað og var fundi slitið kl. 18:15.