Heimilt að hafa allt að 200 áhorfendur á íþróttakeppnum
Almennar fjöldatakmarkanir verða 50 manns samkvæmt nýjum reglum um samkomutakmarkanir sem taka gildi 24. febrúar. Á íþróttakeppnum verður nú heimilt að hafa áhorfendur. Þetta er meðal tilslakana á samkomutakmörkunum sem heilbrigðisráðherra hefur ákveðið að gera í samræmi við tillögur sóttvarnalæknis.
Af vef Stjórnarráðsins:
Viðburðir þar sem gestir sitja: Allt að 200 manns mega vera viðstaddir athafnir trú- og lífsskoðunarfélaga, sviðslistar- menningar- og íþróttaviðburði, ráðstefnur, fyrirlestra og sambærilega viðburði að uppfylltum öllum eftirtöldum skilyrðum.
- Heimiluð nándarmörk milli ótengdra aðila eru nú 1 metri, að uppfylltum skilyrðum.
- Gestir mega ekki sitja andspænis hver öðrum nema meira en tveir metrar séu á milli þeirra.
- Þátttaka allra gesta skal skráð þar sem fram kemur nafn, kennitala og símanúmer.
- Allir skulu nota andlitsgrímu og tryggt að fjarlægð milli ótengdra aðila sé meiri en 1 metri.
- Heimilt er að hafa hlé á sýningum en áfengisveitingar og áfengissala á viðburðum er óheimil.
- Koma skal í veg fyrir hópamyndanir, jafnt fyrir og eftir viðburð og í hléi.
Ath! Ef ekki er hægt að uppfylla eitthvert framantalinna skilyrða gildir reglan um 50 manna hámarksfjölda á viðburðinum.
Heimilt er að hafa áhorfendur á íþróttaviðburðum. Áhorfendur mega vera allt að 200 manns að því gefnu að hægt sé að uppfylla öll skilyrði hér að framan um viðburði þar sem gestir sitja. Ef áhorfendur eru standandi gildir regla um 50 manna hámarksfjölda.
Mynd með grein: Hafliði Breiðfjörð, Fótbolti.net