342 milljónum króna úthlutað til aðildarfélaga
Ársreikningur 2020
Rekstrartekjur KSÍ á árinu 2020 voru um 1.688 mkr, eða um 67 milljónum hærri en áætlanir gerðu ráð fyrir. Tekjur af landsleikjum svo til hurfu vegna áhorfendabanns, en á móti kom hækkun á styrkjum og framlögum FIFA og viðbótarframlag vegna reksturs Laugardalsvallar. Rekstrarkostnaður var 239 mkr lægri en áætlanir gerðu ráð fyrir, eða um 1.337 mkr samanborið við 1.576 í áætlun.
Hagnaður ársins fyrir ráðstöfun til aðildarfélaga var um 380 mkr. Alls var um 342 mkr úthlutað til aðildarfélaga en áætlun gerði ráð fyrir 128,5 mkr. KSÍ greiddi 70,5 mkr til aðildarfélaga (annarra en þeirra sem léku í Pepsi Max deild karla) vegna barna- og unglingastarfs (þar af 10 mkr aukaúthlutun vegna Covid-19), en félögin í Pepsi Max deild karla fengu sambærilegan styrk frá UEFA að upphæð 90,5 mkr. Auk þessa greiddi KSÍ félögum í leyfiskerfinu 30,6 mkr og ferðaþátttökugjald, verðlaunafé, upptöku- og tæknibúnað og styrk vegna futsal að fjárhæð 36,7 mkr á árinu.
Framlag KSÍ til aðildarfélaga vegna tekjutaps tengdu Covid-19 nam 160,6 mkr, auk þess sem KSÍ tók yfir þátttökugjöld félaga upp á 10,8 mkr sem og hlut félaganna í ferðaþátttökugjaldi um 8 mkr. Jafnframt samþykkti stjórn KSÍ að endurgreiða 24,6 mkr vegna sjónvarpsréttarsamnings (vegna leikja í deild og bikar sem ekki fóru fram keppnistímabilið 2020).
Rekstrarniðurstaða samstæðu Knattspyrnusambands Íslands á árinu er því hagnaður, tæpar 38 milljónir króna.
Fjárhagsáætlun 2021
Gert er ráð fyrir að heildartekjur KSÍ árið 2021 verði um 1.694 mkr samanborið við 1.689 mkr. árið 2020. Áætluð heildargjöld ársins 2021 eru 1.520 mkr, samanborið við 1.337 mkr árið 2020. Áætluð rekstrarniðurstaða ársins 2021 eftir greiðslur til aðildarfélaga er 36,6 mkr.
Í fjárhagsáætlun 2021 er gert ráð fyrir að framlög til aðildarfélaga verði tæpar 146 mkr. Framlag KSÍ til barna- og unglingastarfs er áætlað 60 mkr, greiðslur vegna leyfiskerfis hækka í 41 mkr (vegna leyfiskerfis kvenna), verðlaunafé móta rúmar 13 mkr og þá er gert ráð fyrir að hlutur KSÍ vegna ferðaþátttökugjalds verði tæpar 24 mkr árið 2021. Loks má geta framlags upptöku- og tæknibúnaðar til aðildarfélaga að verðmæti 7,5 mkr.
Við gerð rekstraráætlunar 2021 var litið til rekstrar sambandsins til loka ársins 2024 og þær sveiflur sem einkenna rekstrarumhverfi sambandsins metnar. Það er markmið KSÍ að halda áfram að þróa rekstur sambandsins með stöðugleika og sjálfbærni að leiðarljósi.
Ársskýrsla stjórnar er nú í fyrsta sinn birt sem sérstök vefsíða í stað PDF-forms fyrri ára.
Greinargerð með fjárhagsáætlun
Hægt er að skoða allt um ársþingið 2021 (og fyrri ársþing) á sérstökum ársþingsvef.