Aðildarfélög hvött til að huga að kynjaskiptingu þingfulltrúa
Guðni Bergsson, formaður KSÍ, hefur hvatt aðildarfélög til að huga að kynjaskiptingu við val á þingfulltrúum fyrir ársþing KSÍ. Þingið verður haldið með rafrænum hætti í gegnum fjarfundarbúnað 27. febrúar næstkomandi.
Hér að neðan er bréf Guðna til aðildarfélaga.
Kæru félagar.
Fyrir ársþingið 2020 samþykkti stjórn KSÍ sérstaka hvatningu til aðildarfélaga um að huga að kynjaskiptingu við val á þingfulltrúum. Úr varð að á þinginu, sem haldið var á Ólafsvík, voru fleiri konur þingfulltrúar en nokkru sinni fyrr, sem var mjög jákvætt, en betur má ef duga skal.
Þetta skiptir máli fyrir knattspyrnuhreyfinguna, og það skiptir máli að við höldum áfram á þessari braut. Þriðjungur okkar iðkenda eru konur og stúlkur, en við erum hvergi nærri því hlutfalli þegar kemur að öðrum hlutverkum í hreyfingunni okkar. Þarna verðum við að gera betur. KSÍ vinnur markvisst að því að auka hlut kvenna í nefndum og ráðum og hefur sett sér markmið í því sambandi.
Framundan eru mörg mikilvæg verkefni sem öll miða að því að fjölga konum í okkar hreyfingu, hvetja þær til að ganga til liðs við okkur og gefa kost á sér í trúnaðarstörf fyrir sín félög. Ég vil, fyrir hönd KSÍ, hvetja aðildarfélögin til taka þátt í þessari hvatningu og taka vel á móti þeim konum sem bjóða sig fram. Þær koma með eldmóð fyrir starfinu og íþróttinni, reynslu og þekkingu sem mun nýtast félögunum í þeirra starfi.
Að lokum vil ég sérstaklega hvetja félögin og þeirra fulltrúa til að huga að kynjaskiptingu við val á þingfulltrúum fyrir 75. ársþing KSÍ. Þingið, sem haldið verður 27. febrúar næstkomandi, verður auðvitað svolítið sérstakt að því leyti að þingið verður nú í fyrsta sinn haldið rafrænt með fjarfundarbúnaði. Gerum það líka sérstakt með því að fjölga enn konum í röðum þingfulltrúa. Það skiptir máli fyrir okkur sem hreyfingu og sem samfélag. Við höfum tækifæri til að vera leiðandi á þessu sviði. Grípum tækifærið og tökum forystu!
Með von um jákvæð viðbrögð,
Guðni Bergsson formaður KSÍ
Mynd með grein: Hafliði Breiðfjörð, Fótbolti.net.