75. ársþing KSÍ verður rafrænt
Í samræmi við lög KSÍ og í samræmi við reglugerð heilbrigðisráðherra um takmörkun á samkomum hefur stjórn KSÍ samþykkt að 75. ársþing sambandsins verði haldið rafrænt í gegnum fjarfundarbúnað þann 27. febrúar nk.
Í grein 8.1 í lögum KSÍ kemur fram knattspyrnuþing skuli halda árlega eigi síðar en 28. febrúar og að stjórn KSÍ ákveði þingstað og þingtíma. Að mati KSÍ eru ekki til staðar þau skilyrði og þær aðstæður sem þurfa að vera fyrir hendi svo hægt sé að halda þingið með hefðbundnum hætti eins og til stóð.
Í reglugerð heilbrigðisráðherra um takmörkun á samkomum vegna farsóttar nr. 123/2021 kemur fram að almennar fjöldatakmarkanir miðist við 20 einstaklinga. Ekki er veitt undanþága frá fjöldatakmörkunum nema um sé að ræða samkomur „til verndar lífi eða heilsu manna eða dýra eða vegna samfélagslega ómissandi innviða sem mega ekki stöðvast“.
KSÍ hefur þegar hafið undirbúning rafræns þings í samstarfi við Advania, sem er þjónustuaðili KSÍ á sviði upplýsingatækni, og hefur Advania góða reynslu af rafrænni framkvæmd slíkra viðburða.
Frekari upplýsingar og leiðbeiningar vegna rafræns ársþings (skráning, atkvæðagreiðsla, kosningar, o.s.frv.) verða sendar aðildarfélögum þegar nær dregur þingi.