Félagaskiptaglugginn opnar 18. febrúar
Athygli félaga er vakin á því að félagaskiptaglugginn opnar á ný fimmtudaginn 18. febrúar.
Glugginn er sem stendur lokaður fyrir alla leikmenn nema ósamningsbundna leikmenn yngri flokka. Hann lokar svo aftur, að þessu sinni, miðvikudaginn 12. maí nk.
Sérstök athygli er vakin á því að ef félög ætla að fá leikmenn erlendis frá þá þurfa öll slík félagaskipti að fara fram í gegnum félagaskiptakerfi FIFA (FIFA TMS). Það borgar sig að undirbúa slík félagaskipti tímanlega því alltaf má búast við að félagaskipti milli landa geti tekið nokkra daga eftir að þau hafa verið sett af stað.
Þá er minnt á að ef leikmenn eru frá öðrum löndum en innan EES, Grænlandi og Færeyjum skal samhliða félagaskiptum fylgja staðfesting frá Útlendingastofnun og/eða Vinnumálastofnun á dvalar- og atvinnuleyfi leikmannsins á Íslandi.
Sumarfélagaskiptaglugginn árið 2021 stendur opinn frá 29. júní til 29. júlí.
Vert er að minna á grein 15.4 í reglugerðinni er snýr að félagaskiptum. Hún hljóðar svona:
15.4. Almennt skal gilda, að leikmaður fær keppnisleyfi frá og með tilteknum degi hafi fullfrágengin tilkynning um félagaskiptin borist til skrifstofu KSÍ fyrir miðnætti daginn áður, en þó verður tilkynning sem berst um helgi eða á frídegi að öllu jöfnu afgreidd næsta virka dag á eftir og keppnisleyfi gefið út frá og með þeim degi. Berist tilkynning um félagaskipti undirrituð af leikmanni og félagi sem gengið er í, fyrir miðnætti á lokadegi félagaskiptatímabils skal íslensku félagi sem gengið er úr gefinn einn virkur dagur til að ganga frá félagaskiptunum með undirritun. Keppnisleyfi með nýju félagi getur því tekið gildi í slíkum tilfellum nokkrum dögum eftir að félagaskiptatímabili lýkur en við útgáfu slíks keppnisleyfis ber að gæta þess að a.m.k. tveir dagar líði á milli leikja hjá leikmanninum. Þegar félagið sem gengið er úr er erlent skulu reglur FIFA gilda og getur keppnisleyfi verið gefið út allt að 7 dögum frá lokadegi félagaskiptatímabils.
Loks er minnt á póstfang vegna félagaskipta: felagaskipti@ksi.is