• fös. 22. jan. 2021
  • Fræðsla

Verðlaunatilnefningar verkefna sem tengjast stuðningi við viðkvæma hópa barna

UEFA Foundation for Children er góðgerðarstofnun á vegum Knattspyrnusambands Evrópu (UEFA).  Verkefni stofnunarinnar er mörg og starfsemin er umfangsmikil og nær til allra heimshorna. 

Á hverju ári verðlaunar UEFA Foundation for Children verkefni af ýmsum toga og hefur stofnunin nú kallað eftir verðlaunatilnefningum verkefna sem tengjast stuðningi við viðkvæma hópa barna eða aðlögun jaðarsettra hópa barna, félagslegan stuðning við þau og aðlögun þeirra að samfélaginu.  Verðlaunaféð er 50.000 evrur og tilnefnd verkefni þurfa að hafa tengingu við knattspyrnu eða aðra íþróttaiðkun.  Verkefni sem tengjast afreksstarfi eða verkefni sem ganga út á að þróa knattspyrnuhæfileika koma ekki til greina.  

Hverju aðildarsambandi UEFA er boðið að tilnefna eitt verkefni, sem getur ekki verið verkefni á vegum sjálfs knattspyrnusambandsins, en verður að vera verkefni á vegum aðila (samtök, stofnun, íþróttafélag, o.s.frv.) innan þess landsvæðis sem viðkomandi knattspyrnusamband starfar á.  Viðkomandi aðili þarf jafnframt hafa verið í fullri starfsemi a.m.k. 3 undangengin ár og uppfylla skilyrði viðeigandi yfirvalda um skráningu, fjárhag og alla starfsemi. Tilnefndir aðilar verða jafnframt að starfa í samræmi við regluverk og siðareglur UEFA Foundation for Children.

Ekki er um styrk til nýrra verkefna að ræða, heldur verðlaunatilnefningu fyrir verkefni sem þegar hafa verið framkvæmd og/eða eru yfirstandandi

Tilnefningarfrestur er til 26. mars.

Nánar um UEFA Foundation for Children

 

Mynd með grein:  Vefur UEFA Foundation for Children.