Opið fyrir umsóknir um sérstakan rannsóknarstyrk UEFA
Sjóður UEFA fyrir sérstaka rannsóknarstyrki (UEFA Research Grant Programme) var settur á laggirnar árið 2009 og hefur sjóðurinn stutt við rannsóknir fræðimanna sem starfa að verkefnum í samstarfi við aðildarsambönd UEFA allar götur síðan. Á styrkjatímabilinu sem er nýlega lokið bárust samtals 55 umsóknir um rannsóknarstyrki frá 22 evrópskum knattspyrnusamböndum. Rannsóknarstyrkir UEFA styðja við og hvetja til samstarfs milli knattspyrnusambandanna og fræðasamfélagsins.
Sótt er um rannsóknarstyrk UEFA vegna (knattspyrnutengdra) verkefna sem tengjast rannsóknum í hagfræði, sagnfræði, lögfræði, stjórnun og rekstri, læknisfræði, stjórnmálafræði, sálfræði og félagsfræði. Rannsakandinn þarf að vera í samstarfi við knattspyrnusamband eða -sambönd innan UEFA og þarf annað hvort að hafa doktorsgráðu eða vera í doktorsnámi í viðkomandi fræðum. Upphæð styrks til verkefnis er að hámarki 15 þúsund evrur (20 þúsund evrur ef um sameiginlegt verkefni fleiri en eins knattspyrnusambands er að ræða).
Umsóknarfrestur er til 31. mars næstkomandi og afgreiðsla umsókna liggur fyrir í lok júní. Reiknað er með 9 mánuðum til að ljúka hverri rannsókn og skila niðurstöðum.
Smellið hér að neðan til að skoða nánari upplýsingar.