Verkefni tilnefnt til Nýsköpunarverðlauna forseta Íslands
Nýsköpunarverðlaun forseta Íslands verða afhent við hátíðlega athöfn á Bessastöðum, 20. janúar nk. Verðlaunin eru veitt þeim námsmönnum sem hafa unnið framúrskarandi starf við úrlausn verkefna sem styrkt voru af Nýsköpunarsjóði námsmanna árið 2020. Stjórn sjóðsins hefur valið sex öndvegisverkefni en aðeins eitt þeirra hlýtur viðurkenninguna. Forseti Íslands afhendir verðlaunin.
Á meðal tilnefndra verkefna er „Sálfræðileg hæfnisþjálfun ungra knattspyrnuiðkenda á Íslandi“, verkefni sem unnið var fyrir KSÍ af Grími Gunnarssyni, MSc nema í klínískri sálfræði við Háskólann í Reykjavík. Leiðbeinendur hans voru dr. Hafrún Kristjánsdóttir, sálfræðingur og forseti Íþróttadeildar Háskólans í Reykjavík og Arnar Þór Viðarsson, sviðsstjóri knattspyrnusviðs KSÍ.
Meðal þess sem Grímur gerði var að sinna sálfræðilegum mælingum og vinnustofu U15 úrtakshóps og með þeirri vinnu sýnt hvernig hægt er að nota SoccerLAB til að vinna með niðurstöður sálfræðimælinga sem og verkefnavinnu. Samhliða því skrifaði hann fræðslubók sem snýr að grunnfræðslu um sálfræði í knattspyrnu, sem getur einnig átt erindi til iðkenda annarra íþrótta.
Um verkefnið:
Nýjasta tækni og vísindi hafa hjálpað íþróttafólki að verða sterkara, fljótara og tæknilega betra. Til að geta nýtt þessa færni þegar á hólminn er komið þurfa þó aðrir þættir að vera til staðar líka. Sjálfstraust, einbeiting, áhugahvöt, þrautseigja, kvíða- og spennustjórnun, svo fátt eitt sé nefnt, eru allt þættir sem hægt er að þjálfa eins og hverja aðra færni.
Í verkefninu var unnið að því hvernig Knattspyrnusamband Íslands getur stuðlað að sálfræðilegri þjálfun ungra knattspyrnuiðkenda með markvissum, sálfræðilegum mælingum og hagnýtingu þeirra niðurstaðna. Jafnframt var kortlagt hvernig KSÍ getur séð til þess að leikmenn og foreldrar geti leitað sálfræðilegrar aðstoðar eða hugarþjálfunar ef þess er óskað.
Samhliða þessari vinnu var skrifuð bókin Sálfræði í knattspyrnu, sem mun koma út árið 2021. Bókin er ætluð knattspyrnuiðkendum á aldrinum 13-18 ára. Í bókinni er stiklað á stóru á helstu grunnþáttum sálfræði í knattspyrnu og lesendum gefin verkfæri til að stuðla að eigin sálfræðilegri þjálfun. Í lok hvers kafla eru leiðbeiningar til þjálfara um hvernig hægt er að innleiða efni kaflans á æfingum og í leikjum. Þrátt fyrir að verkefnið hafi verið unnið í knattspyrnuumhverfi á öll sú vinna sem var unnin fullt erindi til annarra aðildarfélaga Íþróttasambands Íslands.
Á vef Rannís segir m.a. að "verkefnin sem tilnefnd eru sem öndvegisverkefni eiga það sameiginlegt að vera vel unnin og frumleg en eru afar ólík innbyrðis og sýna vel þá fjölbreytni sem einkennir verkefni sem sjóðurinn veitir styrki til. Þessi fjölbreytni endurspeglar ennfremur það frjóa og margbreytilega starf og nám sem háskólanemar á Íslandi og íslenskir námsmenn erlendis leggja stund á".
KSÍ óskar Grími og öðrum sem að verkefninu koma innilega til hamingju með tilnefninguna.