Fjöldi leikja um helgina
Æfingamótin fara af stað um helgina, en keppni hefst í Fótbolti.net mótinu, Kjarnafæðismótinu og Reykjavíkurmótinu.
Breytingar á samkomutakmörkunum tóku gildi 13. janúar og fólu þær m.a. í sér að íþróttaæfingar barna og fullorðinna verða heimilar með og án snertingar innan- og utandyra, og að íþróttakeppnir barna og fullorðinna verða heimilar, en án áhorfenda.
Fyrstu leikirnir eftir þessar breytingar fara fram á föstudag, en þá eru þrír leikir. Í Fótbolti.net móti karla fara fram tveir leikir. Grótta og ÍA mætast kl. 18:30 á Vivaldivellinum og Njarðvík og Selfoss mætast í Reykjaneshöllinni kl. 19:40. Síðasti leikur dagsins er svo leikur Tindastóls og Þór/KA 2 í Kjarnafæðismóti kvenna.
Á laugardag og sunnudag eru svo fjöldi leikja, átta á laugardag og fimm á sunnudag. Reykjavíkurmót meistaraflokks karla fer af stað á laugardag með tveimur leikjum í A riðli. Leiknir R. og Þróttur R. mætast kl. 13:00 á Domusnovavellinum og Víkingur R. og Valur mætast á Víkingsvelli kl. 15:00. Reykjavíkurmót meistaraflokks kvenna fer síðan af stað á sunnudeginum, einnig með tveimur leikjum. KR og Víkingur R. mætast í Egilshöll kl. 16:30 og Þróttur R. og Fjölnir etja kappi á Eimskipsvellinum kl. 16:00.
Reykjavíkurmót meistaraflokks karla