Lokalota UEFA CFM námsins í næstu viku
Í næstu viku fer fram þriðja og síðasta vinnulotan í UEFA CFM náminu sem nú er haldið í fyrsta sinn hjá KSÍ. Í þessari þriðju vinnulotu verður fjallað um viðburðastjórnun, auk þess sem þátttakendur kynna og verja verkefni sín.
UEFA CFM (UEFA Certificate in Football Management) er stjórnunarnám á vegum Knattspyrnusambands Evrópu fyrir einstaklinga sem starfa í knattspyrnuhreyfingunni eða tengjast henni með beinum hætti. Námið er á háskólastigi og hefur verið skipulagt af UEFA síðan árið 2010 í samstarfi við svissnesku námsstofnunina IDHEAP (The Swiss Graduate School of Public Administration, við háskólann í Lausanne).
Þátttakendur í þeim útgáfum af UEFA CFM sem haldin eru í aðildarlöndum UEFA geta verið allt að 30 (að hámarki 20 frá viðkomandi landi og að hámarki 10 erlendis frá). Auk íslenskra nemenda í UEFA CFM Iceland edition koma þátttakendur frá Skotlandi, Hvíta-Rússlandi, Danmörku, Finnlandi, Svíþjóð og Noregi.
Námið er að mestu rafrænt og fer allt fram á ensku (námsgögn, verkefni og fyrirlestrar). Í hefðbundinni útfærslu er rafræni hlutinn (e-learning) í 6 lotum (modules), og allajafna eru haldnar 3 vinnulotur (face-to-face seminars). Fyrsta vinnulotan var haldin í höfuðstöðvum KSÍ í mars 2020, en vinnulota 2 var haldin í fjarnámi sumarið 2020 vegna kórónaveirufaraldursins og hið sama er uppi á teningnum nú varðandi vinnulotu 3. Náminu lýkur með útskrift að undangengnum skilum á tveimur skriflegum verkefnum og munnlegu lokaprófi.
Kennarar og fyrirlesarar eru tilnefndir af UEFA/IDHEAP og hafa allir mikla reynslu af því að starfa í alþjóðlegu umhverfi knattspyrnuhreyfingarinnar – hjá knattspyrnusamböndum, knattspyrnufélögum, og fyrirtækjum eða stofnunum með sterka tengingu við knattspyrnu.