• þri. 05. jan. 2021

2247. fundur stjórnar KSÍ - 17. desember 2020

2247. fundur stjórnar Knattspyrnusambands Íslands var haldinn fimmtudaginn 17. desember 2020 og hófst kl. 16:00. Fundurinn fór fram með fjarfundarbúnaði.


Mættir: Guðni Bergsson formaður, Gísli Gíslason varaformaður (yfirgaf fundinn kl. 17:30), Borghildur Sigurðardóttir varaformaður, Ásgeir Ásgeirsson, Haraldur Haraldsson, Ingi Sigurðsson, Magnús Gylfason, Ragnhildur Skúladóttir, Valgeir Sigurðsson og Þorsteinn Gunnarsson.

Mættur framkvæmdastjóri: Klara Bjartmarz sem ritaði fundargerð.


Þetta var gert:

1 Fundargerð síðasta stjórnarfundar var þegar samþykkt á rafrænan hátt á milli funda af öllum stjórnarmönnum sambandsins.

2 Fundargerðir nefnda og starfshópa voru lagðar fram til kynningar.

2.1 Landsliðsnefnd kvenna 5. desember 2020

2.2 Landsliðsnefnd kvenna 16. desember 2020

3 Umsókn Norðurlandanna um HM kvenna 2027.

3.1 Minnisblað varðandi undirbúning umsóknar Norðurlandanna um HM kvenna 2027 lagt fram. Stjórn þarf að taka ákvörðun um það hvort að Ísland taki áfram þátt í undirbúningi umsóknar, hvort sem Ísland sæki um að hafa leik(i) í mótinu eða halda viðburð(i) í tengslum við mótið. Taka þarf ákvörðun um framhaldið fljótlega eftir áramót.

4 Ársþing

4.1 Klara Bjartmarz framkvæmdastjóri fór yfir undirbúning þingsins sem miðar að því að þingið verði að Ásvöllum eins og þegar hefur verið samþykkt en til vara verði rafrænt þing. Þegar hefur verið boðað til þingsins í samræmi við lög KSÍ.

4.2 Rætt um fyrirvara á þingstað vegna óvissu um ákvæði í reglugerð um takmörkun á samkomum innanlands. Stjórn leggur áherslu á að gæta verði fyllsta öryggis m.t.t. sóttvarna þar sem á þinginu eru fulltrúar félaga víðs vegar af landinu.

4.3 Stjórn samþykkti að gefa framkvæmdastjóra umboð til að ræða strax við tilnefnda þingforseta og þingritara til að hafa þau með í ráðum varðandi undirbúning þingsins og rafrænar lausnir.

5 Landsliðsmál

5.1 Guðni Bergsson formaður KSÍ greindi stjórn frá vinnu undanfarna daga í tengslum við þjálfaramál A landsliðs karla. Stjórn gaf formanni KSÍ, Guðna Bergssyni umboð til að ganga til samninga í samræmi við tillögu formanns. Framkvæmdastjóri KSÍ, Klara Bjartmarz og formaður fjárhags- og endurskoðunarnefndar, Borghildur Sigurðardóttir verða formanni til aðstoðar í samningagerðinni.

5.2 Borghildur Sigurðardóttir varaformaður KSÍ og formaður landsliðsnefndar kvenna upplýsti stjórn um stöðuna í þjálfaramálum A kvenna. Stefnan er að taka næstu skref í málinu í upphafi nýs árs.

5.3 Klara Bjartmarz framkvæmkvæmdastjóri upplýsti stjórn um að UEFA hafi aflýst milliriðlum U17 karla og kvenna 2020/2021 og úrslitakeppnum þessara móta sem fram áttu að fara í maí 2021. Ennþá er hins vegar stefnt að því að milliriðlar U19 karla og kvenna fari fram vorið 2021.

6 Mótamál

6.1 Valgeir Sigurðsson formaður mótanefndar kynnti stjórn skýrslu starfshóps um fjölgun leikja í Pepsi Max deild karla. Starfshópurinn fundaði 5 sinnum og lagði fram ítarlega skýrslu. Áhyggjuefni er að Pepsi Max deild karla hefur hrapað á styrkleikalista félagsliða hjá UEFA. Nefndin skilgreindi skýr markmið og leggur til að tekin verði upp úrslitakeppni í 12 liða deild frá árinu 2022. Samkvæmt tillögunni leikur hvert lið 5 leiki til viðbótar við það sem nú er, og um er að ræða 23% fjölgun leikja í heildina. Starfshópurinn leggur áherslu á að ná breiðri samstöðu og undirbúa málið vel áður en það verður borið fram á þingi.

6.2 Stjórn þakkaði starfshópnum fyrir skýrsluna og góða vinnu.

6.3 Stjórn ræddi um næstu skref í málinu og einnig um möguleika á breytingu á fyrirkomulagi annarra deilda, þ.m.t. Pepsi Max deild kvenna. Ákveðnir þættir í þessari skýrslu geta nýst varðandi endurskoðun annarra deilda og jafnvel varðandi nýja bikarkeppni neðri deilda sem kallað hefur verið eftir. Rætt um hefja rýnivinnu á fyrirkomulagi annarra deilda og byrja á Pepsi Max deild kvenna. Skoða þarf hvort að sami starfshópur og fjallaði um fjölgun leikja í Pepsi Max deild karla taki líka til umfjöllunar mögulega breytingu á fyrirkomulagi Pepsi Max deildar kvenna. Skammur tími er til stefnu ef leggja á fram lagabreytingatillögu fyrir næsta ársþing.

6.4 Haraldur Haraldsson lagði til að næsta skref væri að kynna málið fyrir félögum í Pepsi Max deild karla og það væri gert fyrir jól. Skýrslan verður ekki birt fyrr en eftir þann kynningarfund. Stjórn samþykkti tillöguna.

7 Önnur mál

7.1 UEFA hefur samþykkt umsókn KSÍ um þátttökurétt íslenskra félagsliða í Evrópukeppni 2021/2022. Umsókn byggist á niðurstöðu íslenskra félagsliða í efstu deildum árið 2020 í samræmi við ákvörðun stjórnar um mótslok.

7.2 Klara Bjartmarz framkvæmdastjóri gaf stjórn skýrslu um stöðuna á samningaviðræðum við Félag deildadómara (FDD). Verið er að vinna í smærri hópum varðandi einstök efnisatriði samningsins.

7.3 Guðni Bergsson formaður ræddi um ríkisstyrki og afgreiðslu frumvarps um stuðning til íþróttahreyfingarinnar vegna Covid 19. Málið verður vonandi afgreitt frá Alþingi á næstu dögum.

7.4 Ásgeir Ásgeirsson formaður samninga- og félagaskiptanefndar upplýsti stjórn um fund nefndarinnar, þar sem m.a var rætt um tryggingamál leikmanna og greiðslufyrirkomlag launa. Nauðsynlegt er að koma þessum málum í betri farveg til framtíðar. Skoða þarf til dæmis hvort að hægt sé að nýta reynslu þeirra félaga sem hafa þessi mál í góðum farvegi og tengingu við leyfiskerfið.

Fleira var ekki bókað og var fundi slitið kl. 18:12.