Pistill formanns: Framtíðin er björt!
Nú er þessu ótrúlega ári 2020 að ljúka. Þetta hefur svo sannarlega reynt á okkur öll. Við þurftum að takast á við verulegar áskoranir í fótboltanum eins og í samfélaginu öllu.
Hvernig horfum við nú til baka til ársins? Ég vil horfa til þess að okkur tókst í sameiningu að halda starfinu uppi að langmestu leyti þrátt fyrir ýmsar hindranir og takmarkanir. Samskiptin við heilbrigðisyfirvöld voru bæði flókin og umfangsmikil svo ekki sé talað um að skipuleggja heilt mót upp á nýtt.
Við kláruðum yfir 90% af okkar mótahaldi í meistaraflokkum og öllum Íslandsmótum yngri flokka. Það voru vissulega vonbrigði að ljúka ekki alveg deildarkeppninni og þurfa að hætta leik, en það var sviðsmynd sem við höfðum samt gert ráð fyrir og tókumst á við hana samkvæmt sérstakri reglugerð sem sett var í samráði við félögin. Mig langar að nota tækifærið og þakka öllum fyrir þátttökuna í mótunum í ár - leikmönnum, þjálfurum, dómurum, forsvarsmönnum, sjálfboðaliðum, stuðningsmönnum, starfsfólki og skipuleggjendum mótahalds. Þið gerðuð öll ykkar besta í erfiðum aðstæðum. Einnig vil ég óska Íslands- og deildarmeisturum til hamingju með árangurinn ásamt liðunum sem fóru upp um deild og ég veit að liðin sem féllu munu mæta sterk til leiks á næsta ári.
Ég er þess viss að við munum hefja leik næsta vor við aðrar og betri kringumstæður. Við skulum þá virkilega njóta þess því íslenskur fótbolti er á spennandi stað. Það hefur átt sér stað ákveðin sjálfsskoðun undanfarin misseri m.a. vegna slaks árangurs í Evrópukeppni félagsliða og við horfum nú til þess að vilja breyta okkar mótahaldi og styrkja afreksstarfið. Fyrir liggja spennandi tillögur starfshóps um breytingu á Pepsi Max deild karla og mögulega í öðrum deildum. Einnig erum við að skoða umspil og bikarkeppni neðri deilda. Ég fagna þessu og við gætum séð verulegar breytingar á mótahaldi á næstu tveimur árum.
Samhliða þessu hefur umræðan aukist um afreksstarfið. Við þurfum að finna gott jafnvægi á milli grasrótar- og afreksstarfs og við getum bætt okkur á afrekssviðinu. Með nýju knattspyrnusviði KSÍ höfum við verið að leita leiða til þess að bæta okkar afreksstarf bæði innan knattspyrnusambandsins og hjá félögunum. Auknar mælingar, greiningar og upplýsingaöflun hafa verið gerðar og styrktar af KSÍ og umræðan tekin með yfirþjálfurum félaganna og forsvarsmönnum. Einnig höfum við bætt við æðstu þjálfaragráðu UEFA, Pro Licence, í okkar námskeiðahald sem er mikið framfaraspor. Ný drög að metnaðarfullri afreksstefnu KSÍ voru síðan kynnt sem mun verða leiðarvísir fyrir starf okkar innan sambandsins. Þessi kafli hjá okkur er rétt að byrja og horfi ég fram á jákvæða þróun í þessum efnum á næstu árum og að íslenskur fótbolti muni verða betri og samkeppnishæfari fyrir vikið.
Hvað varðar landsliðsstarfið þá komust landsliðin okkar á tvenn stórmót á árinu. Fyrst skal nefna glæsilegan árangur kvennalandsliðsins sem komst á EM í fjórða sinn í röð og með bestan árangur í sögu liðsins í riðlakeppni. Vel gert það hjá nýkjörnu liði ársins af íþróttafréttamönnum og Söru Björk fyrirliða landsliðsins sem var kjörin íþróttamaður ársins með fullu húsi stiga. Einnig náði U21 lið karla inn í lokakeppni þrátt fyrir að vera í geysisterkum riðli. Þessi árangur liðanna veit svo sannarlega á gott og er hvatning fyrir alla okkar iðkendur. Við vorum síðan einungis 5 mínútum frá því að tryggja okkur sæti á EM A landsliða karla en sá bolti datt ekki fyrir okkur að þessu sinni. Nýir þálfarar karlalandsliðsins voru svo kynntir nýlega - þeir Arnar Þór Viðarsson og Eiður Smári Guðjohnsen sem nú taka við keflinu og einnig liggur fyrir að nýr þjálfari taki við kvennalandsliðinu eftir áramótin.
Hvað almennan rekstur varðar þá þurfti að sinna mikilvægri hagsmunagæslu gagnvart hinu opinbera varðandi fjármál félaganna og þá tekjuskerðingu sem hreyfingin varð fyrir. Það er ánægjulegt frá því að segja að nýleg lagasetning vegna launa- og verktakakostnaðar ásamt öðrum úrræðum kynntum af stjórnvöldum munu gagnast okkar aðildarfélögum gríðarlega vel. Mun sá stuðningur nema fleiri hundruðum milljóna króna til viðbótar þeim fjármunum sem veittur var fyrr á árinu og verður að þakka öllum þeim sem að því komu fyrir þann stuðning. KSÍ hefur síðan eftir fremsta megni reynt að styðja frekar við félögin með framlögum og rekstrarstyrkjum sem námu alls um 340 mkr. í ár.
Vil ég líka geta þess að við stóðum fyrir útbreiðsluátaki í sumar með Mola (Siguróla Kristjánssyni) og Landsbankanum um allt land, „Komdu í fótbolta með Mola“, ásamt því að ljúka viðamikilli skýrslu um kvennaknattspyrnu og framtíð hennar sem verður kynnt fljótlega.
Einnig tók gildi í ár samningur við PUMA sem er sá stærsti sem KSÍ hefur gert á því sviði og við kynntum nýtt merki KSÍ- og landsliðsmerki sem hefur fengið frábærar viðtökur.
Ég hef mest rætt hér afreksstarfið okkar en nú í dag er ekki síst mikilvægt að við hlúum vel að grasrótarstarfinu og lágmörkum brottfall iðkenda. Það er metnaðarmál að allir okkar fjölmörgu skráðu iðkendur félaganna sem eru nú um 30.000 talsins haldi áfram í fótboltanum og séu sem ánægðastir. Það er samfélaginu öllu mikilvægt sem lýðheilsumál.
Að lokum vil ég segja þetta. Við getum verið stolt af íslenskum fótbolta. Hann stendur fyrir margt það besta sem okkar samfélag hefur upp á að bjóða. Á sama tíma og við eigum að gleðjast yfir því sem vel er gert þá eigum við ávallt að reyna að bæta okkur. Ég tel okkur vera á þeirri vegferð saman.
Með kærri áramótakveðju
Guðni Bergsson, formaður KSÍ