UEFA hættir við EM 2020/2021 hjá U17 karla og kvenna
UEFA hefur tilkynnt að EM 2020/2021 hjá U17 karla og kvenna muni ekki fara fram.
Tekur ákvörðunin til mótanna 2020-2021, en undankeppni EM 2022 mun fara fram í haust hjá U17 karla og kvenna.
Þessi ákvörðun er tekin í ljósi heimsfaraldurs COVID-19 og stöðu hans í Evrópu. UEFA telur að ekki sé skynsamlegt að halda mót yngri landsliða fyrstu mánuðina á nýju ári.
Á sama tíma tilkynnti UEFA hvernig undankeppninni hjá U19 karla og kvenna yrði háttað fyrir EM 2021.
Undankeppni EM 2021 hjá U19 kvenna verður leikin í apríl 2021, umspil þar sem leiknir verða stakir leikir fer fram í júní og lokakeppnin síðan í Hvíta Rússlandi í júlí/ágúst.
Undankeppni EM 2021 hjá U19 karla verður leikin í mars 2021, umspil þar sem leiknir verða stakir leikir fer fram í maí/júní og lokakeppnin fer fram í Rúmeníu í júlí.