Vegna yfirlýsingar Fram
Vegna yfirlýsingar Fram sem birt var á vef félagsins 16. desember vill KSÍ koma neðangreindu á framfæri.
Í knattspyrnuhreyfingunni eru sjálfstæð dómstig samkvæmt lögum KSÍ. Lög KSÍ eru samþykkt af knattspyrnuhreyfingunni sjálfri á ársþingi. Þar eru leikreglurnar settar, af aðildarfélögum KSÍ, ásamt því að fólk er tilnefnt og kosið til starfa, m.a. í Aga- og úrskurðarnefnd og Áfrýjunardómstól. Þessir dóms- og úrskurðaraðilar starfa algerlega sjálfstætt og án áhrifa af hálfu stjórnar KSÍ á nokkurn hátt. Fólkið sem knattspyrnuhreyfingin kýs til starfa í þessi dómstig eru reynslumiklir og hæfir einstaklingar, sjálfboðaliðar sem leggja á sig mikla vinnu við að gera sitt besta fyrir knattspyrnuhreyfinguna. Þessir einstaklingar eru félagar í knattspyrnuhreyfingunni sem starfa af hugsjón og heilindum við það að komast að réttri niðurstöðu lögfræðilega eftir núgildandi lögum og reglum - lögum og reglum sem hreyfingin hefur sjálf sett sér.
Þetta ættu forsvarsmenn Knattspyrnufélagsins Fram að vita, enda er Fram aðildarfélag KSÍ, hluti af knattspyrnuhreyfingunni. Það er sjálfsagt fyrir Fram, sem eitt af elstu aðildarfélögum KSÍ, að leggja fram tillögur að breytingum á lögum og regluverki knattspyrnuhreyfingarinnar.
Aðilar innan hreyfingarinnar eru ekki alltaf sammála og stundum er tekist á um málefni, það er sanngjarnt, heilbrigt og eðlilegt. En sá málflutningur Fram að ætla stjórn KSÍ, þar sem sitja sjálfboðaliðar kjörnir af aðildarfélögunum, að reyna að hafa áhrif á framgang mála á dómstigum hreyfingarinnar, eða reyna koma í veg fyrir eðlilega úrlausn máls er ómaklegur og ósannur. Þennan málflutning er ekki hægt að sætta sig við.