70 milljónir í Covid-styrk til aðildarfélaga
Á fundi stjórnar KSÍ 10. desember var samþykkt úthlutun á Covid-styrk til aðildarfélaga. Um er að ræða sérstakt 60 milljóna króna Covid-framlag og 10 milljóna króna aukaúthlutun í barna- og unglingastyrk.
Stjórnin samþykkti eftirfarandi bókun í þessu sambandi:
Stjórn KSÍ færir stjórnum, starfsfólki, iðkendum, sjálfboðaliðum og öllum þeim sem koma að framgangi knattspyrnunnar þakkir fyrir þrautseigju og mikla vinnu á þeim mánuðum sem Covid-veiran hefur kollvarpað starfsemi og fjárhag félaganna. Nú þegar hyllir undir nýtt ár og vonandi bjartari tíma liggur ljóst fyrir að mikil vinna er framundan við að ná fyrri styrk og umsvifum. Covid-veiran hefur ekki aðeins raskað verulega hefðbundinni starfsemi heldur einnig leitt af sér brottfall iðkenda og höggvið skarð í samstöðu íþróttahreyfingarinnar. Stjórn KSÍ og starfsfólk sambandsins hefur allt frá því samkomubann var fyrirskipað þann 16. mars sl. unnið að hagsmunagæslu fyrir aðildarfélög KSÍ, sem m.a. hafa falist í samskiptum við ríkið um úrræði og framlag til félaga sem hafa þurft að þola verulegt tekjutap. Árangur hefur náðst, en áfram er verk að vinna.
Þá hefur stjórn KSÍ samþykkt áskorun um að sveitarfélögin í landinu leggi íþróttahreyfingunni aukið lið m.a. með tilliti til barna- og unglingastarfs og mikilvægi þess í þeirri viðspyrnu sem nauðsynleg er á komandi mánuðum. Er vonast eftir aðgerðum sveitarfélaga í þessu sambandi.
Íþróttahreyfingin bíður nú eftir útfærslu á frekari stuðningi ríkisins.
Skipting úthlutunar KSÍ er framkvæmd á grundvelli reiknilíkans sem notast var við fyrir útgreiðslu sérstaks EM-framlags 2016, HM-framlags 2018 og fyrra framlags KSÍ til félaganna vegna tekjutaps tengt Covid-19 með lítilsháttar lagfæringu. Í því líkani er félögum skipt upp í tvo flokka. Annars vegar félög með barna- og unglingastarf og hins vegar félög án þess. Eingöngu félög með virkt barna- og unglingastarf hljóta framlag frá KSÍ.
Smellið hér til að skoða fundargerðina í heild sinni, ásamt upphæðum og skiptingu milli félaga