2246. fundur stjórnar KSÍ 10. desember
2246. fundur stjórnar Knattspyrnusambands Íslands var haldinn fimmtudaginn 10. desember 2020 og hófst kl. 16:00. Fundurinn fór fram með fjarfundarbúnaði.
Mættir: Guðni Bergsson formaður, Gísli Gíslason varaformaður, Borghildur Sigurðardóttir varaformaður (yfirgaf fundinn kl. 17:50), Ásgeir Ásgeirsson, Haraldur Haraldsson (yfirgaf fundinn kl. 17:03 og tók aftur sæti á fundinum kl. 18:00), Ingi Sigurðsson, Magnús Gylfason, Ragnhildur Skúladóttir, Valgeir Sigurðsson og Þorsteinn Gunnarsson.
Mættir varamenn í stjórn: Þóroddur Hjaltalín, Guðjón Bjarni Hálfdánarson, Jóhann K. Torfason (tók sæti á stjórnarfundi 16:20).
Mættir fulltrúar landshluta: Jakob Skúlason (VL), Tómas Þóroddsson (SL), Bjarni Ólafur Birkisson (AL) og Björn Friðþjófsson (NL).
Mættur framkvæmdastjóri: Klara Bjartmarz sem ritaði fundargerð.
Þetta var gert:
1 Fundargerð síðasta stjórnarfundar var þegar samþykkt á rafrænan hátt á milli funda af öllum stjórnarmönnum sambandsins.
2 Fundargerðir nefnda og starfshópa voru lagðar fram til kynningar.
2.1 Starfshópur um þingskjal 10, 1. desember 2020
2.2 Landsliðsnefnd karla, 4. desember 2020
2.3 Dómaranefnd KSÍ, 8. desember 2020
Ragnhildur Skúladóttir formaður fræðslunefndar greindi frá fundi nefndarinnar í gær og umræðu á fundinum um menntun þjálfara. Ákvæði í reglugerðum um viðurlög ef menntunarkröfur eru ekki uppfylltar eru takmörkuð. Rætt um viðurlög almennt í regluverki KSÍ og nauðsyn þess að huga að endurskoðun. Stjórn samþykkti að vísa endurskoðun á viðurlaga- og sektarákvæðum í regluverki KSÍ til laga- og leikreglnanefndar til skoðunar.
3 Fjármál
3.1 Úthlutun á Covid styrk yfirfarin og samþykkt, sbr. samþykkt stjórnar 3. desember 2020. Rætt var um skiptingu milli deilda og félaga og sérstaklega tiltekið að á fundinum 3. desember var 10 milljónum bætt í úthlutun á barna og unglingastyrk til annarra félaga en þeirra sem eru í Pepsi Max-deild karla. Í úthlutuninni var tekið tillit til þeirrar greiningar sem gerð var í vor varðandi tekjutap mismunandi deilda vegna Covid-19. Þá samþykkti stjórn ennfremur að fresta því að taka tillit til fyrirvara vegna sjónvarpsréttar sem samþykkt var á fundinum 3. desember.
Stjórn KSÍ samþykkti eftirfarandi bókun í þessu sambandi:
Stjórn KSÍ færir stjórnum, starfsfólki, iðkendum, sjálfboðaliðum og öllum þeim sem koma að framgangi knattspyrnunnar þakkir fyrir þrautseigju og mikla vinnu á þeim mánuðum sem Covid-veiran hefur kollvarpað starfsemi og fjárhag félaganna. Nú þegar hyllir undir nýtt ár og vonandi bjartari tíma liggur ljóst fyrir að mikil vinna er framundan við að ná fyrri styrk og umsvifum. Covid-veiran hefur ekki aðeins raskað verulega hefðbundinni starfsemi heldur einnig leitt af sér brottfall iðkenda og höggvið skarð í samstöðu íþróttahreyfingarinnar. Stjórn KSÍ og starfsfólk sambandsins hefur allt frá því samkomubann var fyrirskipað þann 16. mars sl. unnið að hagsmunagæslu fyrir aðildarfélög KSÍ, sem m.a. hafa falist í samskiptum við ríkið um úrræði og framlag til félaga sem hafa þurft að þola verulegt tekjutap. Árangur hefur náðst, en áfram er verk að vinna.
Þá hefur stjórn KSÍ samþykkt áskorun um að sveitarfélögin í landinu leggi íþróttahreyfingunni aukið lið m.a. með tilliti til barna- og unglingastarfs og mikilvægi þess í þeirri viðspyrnu sem nauðsynleg er á komandi mánuðum. Er vonast eftir aðgerðum sveitarfélaga í þessu sambandi.
Íþróttahreyfingin bíður nú eftir útfærslu á frekari stuðningi ríkisins.
---
Skipting úthlutunar KSÍ er framkvæmd á grundvelli reiknilíkans sem notast var við fyrir útgreiðslu sérstaks EM-framlags 2016, HM-framlags 2018 og fyrra framlags KSÍ til félaganna vegna tekjutaps tengt Covid-19 með lítilsháttar lagfæringu. Í því líkani er félögum skipt upp í tvo flokka. Annars vegar félög með barna- og unglingastarf og hins vegar félög án þess. Eingöngu félög með virkt barna- og unglingastarf hljóta framlag frá KSÍ.
Úthlutun KSÍ í desember 2020 (60 mkr í sérstakt Covid framlag + 10mkr aukaúthlutun í barna og unglingastyrk) skiptist á eftirfarandi hátt á milli félaga:
Pepsi Max deildir karla og kvenna |
Covid framlag |
10 mkr. framlag |
Samtals |
Breiðablik |
2.750.000 |
2.750.000 |
|
FH |
2.750.000 |
2.750.000 |
|
KA |
2.062.500 |
2.062.500 |
|
KR |
2.750.000 |
2.750.000 |
|
Stjarnan |
2.750.000 |
2.750.000 |
|
Valur |
2.750.000 |
2.750.000 |
|
HK |
2.200.000 |
2.200.000 |
|
Fylkir |
2.750.000 |
2.750.000 |
|
Fjölnir |
2.475.000 |
2.475.000 |
|
ÍA |
2.475.000 |
2.475.000 |
|
Víkingur R. |
2.475.000 |
2.475.000 |
|
Grótta |
2.475.000 |
2.475.000 |
|
Þróttur |
2.475.000 |
398.671 |
2.873.671 |
Selfoss |
2.200.000 |
398.671 |
2.598.671 |
ÍBV |
2.475.000 |
398.671 |
2.873.671 |
Þór |
1.787.500 |
398.671 |
2.186.171 |
|
|
|
|
Lengjudeildir karla og kvenna |
Covid framlag |
10 mkr. framlag |
Samtals |
Víkingur Ó. |
845.070 |
398.671 |
1.243.742 |
Grindavík |
1.478.873 |
398.671 |
1.877.544 |
Fram |
1.478.873 |
398.671 |
1.877.544 |
Leiknir R. |
845.070 |
398.671 |
1.243.742 |
Magni |
845.070 |
382.060 |
1.227.130 |
Leiknir F. |
1.056.338 |
398.671 |
1.455.009 |
Afturelding |
1.690.141 |
398.671 |
2.088.812 |
Keflavík |
1.690.141 |
398.671 |
2.088.812 |
Vestri |
845.070 |
398.671 |
1.243.742 |
Haukar |
1.478.873 |
398.671 |
1.877.544 |
Völsungur |
1.478.873 |
398.671 |
1.877.544 |
Tindastóll |
1.267.606 |
398.671 |
1.666.277 |
|
|||
2. deildir karla og kvenna |
Covid framlag |
10 mkr. framlag |
Samtals |
Dalvík/Reynir |
372.414 |
249.169 |
621.583 |
Fjarðabyggð |
496.552 |
166.113 |
662.665 |
ÍR |
744.828 |
249.169 |
993.997 |
KF |
372.414 |
249.169 |
621.583 |
Njarðvík |
372.414 |
249.169 |
621.583 |
Víðir |
372.414 |
249.169 |
621.583 |
Þróttur V. |
372.414 |
249.169 |
621.583 |
Hamar |
496.552 |
166.113 |
662.665 |
|
|||
3. deild karla |
Covid framlag |
10 mkr. framlag |
Samtals |
Álftanes |
500.000 |
166.113 |
666.113 |
Einherji |
200.000 |
166.113 |
366.113 |
Höttur/Huginn |
200.000 |
166.113 |
366.113 |
Reynir S. |
200.000 |
166.113 |
366.113 |
Sindri |
500.000 |
166.113 |
666.113 |
Ægir |
200.000 |
166.113 |
366.113 |
|
|||
Félög í 4. d. ka m/barna- og unglingastarf |
Covid framlag |
10 mkr. framlag |
Samtals |
KFR |
150.000 |
166.113 |
316.113 |
Snæfell |
150.000 |
149.502 |
299.502 |
Skallagrímur |
150.000 |
166.113 |
316.113 |
Kormákur/Hvöt |
150.000 |
99.668 |
249.668 |
4 Landsliðsmál
4.1 Guðni Bergsson formaður KSÍ opnaði umræðu um A landslið kvenna. Stjórn KSÍ fagnar þeim góða árangri A landsliðs kvenna að tryggja sér sæti í úrslitakeppni EM 2022, fjórðu úrslitakeppni EM í röð. Sá árangur má ekki falla í skuggann af framkomu fráfarandi landsliðsþjálfara eftir síðasta leik liðsins sem hefur axlað ábyrgð og látið af störfum. Við tekur leit að nýjum landsliðsþjálfara. Eftir greinargóða yfirferð á málinu er stjórn einhuga og sammála um að varaformaður sambandsins, Borghildur Sigurðardóttir sem og starfsmenn A landsliðs kvenna, hafi sinnt starfi sínu í ferðinni og eftir hana af fagmennsku og beri á engan hátt ábyrgð á hegðun þjálfarans. Jafnframt var rætt um upplýsingagjöf innan stjórnar og hvaða lærdóm KSÍ megi draga af málinu til að efla traust til framtíðar í anda gilda KSÍ sem eru virðing, samstaða, gleði og framsækni.
4.2 Guðni Bergsson formaður KSÍ opnaði umræðu um A landslið karla. Fyrst kom til umfjöllunar riðill Íslands í undankeppni HM. Fyrsti leikur Íslands verður gegn Þýskalandi ytra í mars 2021. Þá upplýsti Guðni stjórn um stöðuna í þjálfaramálum. Stjórn ræddi ítarlega um málið.
4.3 Dregið var fyrr í dag í riðla í úrslitakeppni U21 karla og er Ísland í riðli með Frakklandi, Rússlandi og Danmörku.
4.4 Rætt um landsliðsþjálfaramál yngri landsliða. Von er á ákvörðun frá UEFA um hvort að fyrirhuguðum mótum fyrri hluta ársins 2021 verði frestað eða ekki. Vegna breytinga á keppnisfyrirkomulagi yngri landsliða þarf að endurskoða skipulag liða, ekki síst hvað varðar þjálfaramál.
5 Mótamál
5.1 Rætt um þátttökutilkynningu og skráningargjald í mót 2021. Stjórn KSÍ samþykkti að innheimta ekki skráningargjöld í mótin 2021 en að nýskráningargjald verði innheimt á sama hátt og gert var 2020. Stjórn er sammála því að stefna að innheimtu skráningargjalda í mót meistaraflokka frá árinu 2022. Jafnframt er stjórn sammála um að stefna að því að frá og með 2022 verði þessi innheimta tengd framlagi hvers félags í dómaramálum. Mikilvægt er að aðildarfélög sambandsins hefjist strax handa við að vinna að fjölgun dómara til að uppfylla ákvæði um fjölda dómara með hliðsjón af fjölda skráðra liða í mótum.
5.2 Rætt um ferðaþátttökugjald 2021. Stjórn samþykkti að halda sama viðmiði og 2020, þ.e. fresta þeirri hækkun sem er í reglugerðinni fyrir keppnistímabilið 2021. Laga- og leikreglnanefnd falið að skoða reglugerðarbreytingu þar að lútandi. Stjórn samþykkti ennfremur að taka yfir hlut félaganna 2021.
5.3 Valgeir Sigurðsson formaður mótanefndar ræddi um undirbúning fyrir næsta tímabil og um vinnu starfshóps um fjölgun leikja í Pepsi Max deild karla. Starfshópurinn stefnir að því að klára sína vinnu fyrir jól og leggja inn tillögu til stjórnar um framhaldið.
6 Önnur mál
6.1 Stjórn ræddi um niðurstöður áfrýjunardómstóls KSÍ í málum Fram gegn KSÍ og KR gegn KSÍ. Dómstóllinn vísaði máli Fram gegn stjórn KSÍ frá aga- og úrskurðarnefnd. Þá staðfesti áfrýjunardómstóll niðurstöðu aga- og úrskurðarnefndar í máli KR gegn stjórn KSÍ, þar sem kröfum KR var hafnað. Málunum tveimur er lokið á dómstigum KSÍ en þó er heimilt að áfrýja niðurstöðu áfrýjunardómstóls KSÍ innan 21 dags til Alþjóða Íþróttadómstólsins CAS (Court of Arbitration For Sport).
6.2 Klara Bjartmarz framkvæmdastjóri ræddi um stöðuna í Covid 19 og þær heimildir sem eru núna í gildi varðandi æfingar aðildarfélaganna. Samkvæmt núgildandi reglugerð heilbrigðisráðherra þá er félögum í efstu deildum karla og kvenna heimilt að æfa með takmörkunum. Þá heimilar reglugerðin að sótt sé um undanþágu vegna æfinga félaga í næstu efstu deildum karla og kvenna. Nú þegar hefur verið sótt um undanþágu fyrir þau félög og þær undanþágubeiðnir samþykktar af stjórnvöldum. Stjórn lýsti yfir þungum áhyggjum af stöðu leikmanna á framhaldsskólaaldri og brottfalli þeirra úr íþróttum.
6.3 Guðni Bergsson formaður ræddi um fund KSÍ og stóru sérsambandanna með velferðarnefnd Alþingis og þau úrræði sem standa félögunum til boða varðandi tekjutap/verktakagreiðslur. Þá hefur KSÍ einnig sent inn umsögn um frumvarpið.
6.4 Guðni Bergsson formaður upplýsti stjórn um stöðu viðræðna við Reykjavíkurborg varðandi rekstrarsamning um Laugardalsvöll. Jákvæð teikn eru á lofti í málinu.
6.5 Stjórn samþykkti beiðnir neðangreindra félaga um frestun mannvirkjaverkefna í samræmi við reglugerð KSÍ um mannvirkjasjóð:
- Breiðablik vegna varamannaskýla á Kópavogsvelli
- Valur vegna nýrra sæta í áhorfendastúku á Hlíðarenda
- FH vegna endurnýjunar grasæfingarsvæðis
- ÍBV vegna nýrra búningsklefa
- Fylkir vegna nýrra varamannaskýla
Fleira var ekki bókað og var fundi slitið kl. 18:40.