• fös. 11. des. 2020
  • Landslið

Sara Björk og Gylfi Þór knattspyrnufólk ársins 2020

Leikmannaval KSÍ hefur valið Gylfa Þór Sigurðsson og Söru Björk Gunnarsdóttur knattspyrnufólk ársins 2020. Þetta er í 17. sinn sem knattspyrnufólk ársins er sérstaklega útnefnt af KSÍ og eru það fjölmargir aðilar, m.a. fyrrverandi landsliðsmenn, þjálfarar og forystumenn í knattspyrnuhreyfingunni, sem velja.

Knattspyrnukona ársins

1. sæti

Mynd:  Hafliði Breiðfjörð, Fótbolti.net

Sara Björk Gunnarsdóttir er Knattspyrnukona ársins í sjöunda skipti og sjötta árið í röð. Sara Björk gekk til liðs við Lyon á árinu frá Wolfsburg. Hún varð fyrsta íslenska konan til að vinna Meistaradeild Evrópu og skoraði þriðja mark Lyon í úrslitaleiknum gegn sínu gamla félagi, Wolfsburg. Sara Björk er fyrirliði íslenska landsliðsins sem tryggði sér sæti á EM 2022 á árinu, en hún lék 10 landsleiki á árinu og skoraði í þeim tvö mörk. Sara Björk bætti landsleikjamet Katrínar Jónsdóttur og er hún nú búin að leika 136 leiki fyrir Íslands hönd.
 
"Það er alltaf mikill heiður að vera kosin knattspyrnukona ársins. Þetta hefur auðvitað verið svolítið sérstakt ár að mörgu leyti. Ég færði mig um set frá Wolfsburg yfir til Lyon eftir góð ár í Þýskalandi, hef verið ánægð með byrjunina hjá nýjum klúbbi og hlakka til framhaldsins, ekki síst með landsliðinu, þar sem við náðum okkar markmiði að tryggja sæti á EM. Það eru eru spennandi tímar framundan.“
 
2. sæti

Mynd:  Hafliði Breiðfjörð, Fótbolti.net

Sveindís Jane Jónsdóttir átti frábært ár. Hún gekk í raðir Breiðabliks á láni frá Keflavík fyrir tímabilið, varð Íslandsmeistari með liðinu og skoraði 14 mörk í 15 leikjum í Pepsi Max deild kvenna og með því markahæst í deildinni ásamt Öglu Maríu Albertsdóttur. Sveindís lék einnig fyrstu A landsleiki sína á árinu og skoraði tvö mörk í sínum fyrsta landsleik þegar Ísland vann 9-0 sigur gegn Lettlandi. Í heildina lék hún 5 A landsleiki á árinu og skoraði í þeim tvö mörk.

3. sæti

Mynd:  Hafliði Breiðfjörð, Fótbolti.net 

Glódís Perla Viggósdóttir var einn allra besti leikmaður sænsku úrvalsdeildarinnar en lið hennar, Rosengard, endaði tímabilið í 2. sæti. Hún var tilnefnd sem besti varnarmaður deildarinnar á uppskeruhátið sænsku úrvalsdeildarinnar. Glódís Perla lék átta A landsleiki á árinu og var lykilmaður í liðinu er það tryggði sér sæti á EM 2022, sem haldið verður á Englandi.

Knattspyrnumaður ársins

1. sæti

 

Gylfi Þór Sigurðsson er Knattspyrnumaður ársins í níunda skipti, en hann hefur hlotið nafnbótina frá árinu 2012. Gylfi Þór leikur með Everton í ensku úrvalsdeildinni og hefur verið leikmaður liðsins frá 2017. Hann lék fjóra leiki með íslenska karlalandsliðinu á árinu og skoraði í þeim þrjú mörk, en þau komu öll í umspili Íslands fyrir EM 2020. Hann hefur því skorað 25 mörk með landsliðinu og þarf aðeins að skora tvö í viðbót til að bæta metið.

,,Að vera kosinn knattspyrnumaður ársins er eitthvað sem ég hef alltaf verið stoltur af, þetta er mikill heiður og ég er þakklátur fyrir kjörið. Það voru auðvitað gríðarleg vonbrigði að missa af EM-sætinu, en við horfum fram á veginn. Það er ný undankeppni að byrja í mars, spennandi riðill, og við ætlum okkur að komast upp úr honum.“

2. sæti

Guðlaugur Victor Pálsson leikur með Darmstadt í Þýskalandi. Hann hefur gott ár bæði með félagsliði sínu og landsliði. Á þessu tímabili hefur hann leikið fimm leiki með Darmstadt og skorað í þeim tvö mörk, en á síðasta tímabili lék hann 31 leik í deildinni, skoraði þrjú mörk og gaf fimm stoðsendingar. Guðlaugur Victor hefur átt fast sæti í byrjunarliði Íslands, hvort sem það er í hægri bakverði eða á miðjunni og hefur hann verið einn allra besti leikmaður liðsins á árinu. Hann var í byrjunarliði liðsins í sjö af átta leikjum þess á árinu.

3. sæti

Ísak Bergmann Jóhannesson hefur átt frábært tímabili í sænsku úrvalsdeildinni með IFK Norrköping. Þrátt fyrir ungan aldur hefur hann verið lykilmaður í liði sínu sem endaði tímabilið í sjötta sæti. Ísak Bergmann lék 28 leiki í deildinni, skoraði í þeim þrjú mörk og gaf 10 stoðsendingar. Hann var lykilmaður í liði U21 karla sem tryggði sér sæti á EM 2021, en það er í annað sinn sem U21 karla kemst í lokakeppni stórmóts. Ísak lék svo sinn fyrsta A landsleik þegar hann kom inn á gegn Englandi í Þjóðadeild UEFA.