Beiðni um undanþágu samþykkt
Miðvikudaginn 9. desember sendi KSÍ inn undanþágubeiðni til heilbrigðisyfirvalda og ÍSÍ þar sem þess var óskað að félögum með lið í næst efstu deildum karla og kvenna yrði heimilað að æfa með sama hætti og einstaklingum og félögum í efstu deild karla og kvenna er heimilað á grundvelli 6. mgr. 5. gr. reglugerðar heilbrigðisráðherra um takmörkun á samkomum vegna farsóttar. Þá er átt við að liðum í næst efstu deildum karla og kvenna í knattspyrnu verði heimilað að æfa með og án snertinga og miðað sé við 25 manna hámarksfjölda. Í undanþágubeiðninni var vísað er til undanþáguheimildar í 3. mgr. 8. gr. í reglugerðinni.
KSÍ hefur borist erindi frá Heilbrigðisráðuneytinu þar sem umsókn KSÍ um undanþáguna er samþykkt. Undanþágan nær til meistaraflokksliðs félags í viðkomandi deild.
Ítrekað er í samþykktinni að lið sem undanþágan nær til skuli gæta sérstaklega vel að öllum sóttvörnum.
Þau félög sem undanþágan nær til hafa fengið sendan tölvupóst þessu til staðfestingar. Pósturinn var sendur á það tölvupóstfang sem skráð var í umsókn hvers félags.