Hægt að sækja um undanþágu
Birtar hafa verið nýjar upplýsingar á vef Stjórnarráðsins varðandi tilslakanir vegna íþróttastarfs. Þar kemur m.a. fram að hægt sé að sækja um undanþáguheimildir, m.a. vegna keppnisdeilda sem eru skilgreindar á sama afreksstigi og efsta deild. KSÍ hefur nú þegar sent félögum í næst efstu deildum karla og kvenna upplýsingar um þessar undanþágubeiðnir og kallað eftir gögnum.
Af vef Stjórnarráðsins:
Heimildir til að stunda íþróttastarf verða rýmri með nýrri reglugerð um takmarkanir á samkomum sem tekur gildi 10. desember. Sérstaklega er kveðið á um íþróttastarf á vegum Íþrótta- og ólympíusambands Íslands (ÍSÍ) varðandi heimildir til æfinga meðal afreksfólks og í efstu deildum sambandsins eins og nánar greinir hér.
Íþróttastarf almennt
Öllum er heimilt að stunda æfingar utandyra sem krefjast ekki snertingar að því gættu að virt sé 2 metra nálægðartakmörkun og að hámarki 10 manns saman.
Íþróttastarf á vegum ÍSÍ
Íþróttaæfingar einstaklinga sem fæddir eru árið 2004 eða fyrr verða heimilar, hvort heldur með eða án snertingar í íþróttum innan ÍSÍ í efstu deild kvenna og karla í hverju sérsambandi. Hámarksfjöldi í hverju rými er 25 manns.
Æfingar afreksmanna í einstaklingsbundnum íþróttum innan ÍSÍ eru heimilar og þar er einnig hámarksfjöldi í hverju rými 25 manns.
Sóttvarnir: Sameiginleg áhöld skulu sótthreinsuð a.m.k. tvisvar á dag. Sameiginleg áhöld skulu sótthreinsuð a.m.k. tvisvar á dag, loftræsting skal vera í lagi og loftað út reglulega yfir daginn.
Bardagalistir: Æfingar sem krefjast snertingar innan bardagaíþrótta eru óheimilar.
Undanþáguheimild: Í 8. gr. meðfylgjandi reglugerðar er kveðið á um heimild ráðherra til að veita undanþágu frá banni við íþróttastarfi fyrir einstaka viðburði, svo sem vegna alþjóðlegra keppnisleikjahér á landi eða æfinga í næstefstu deild sérsambands Íþrótta- og ólympíusambands Íslands ef deildin er skilgreind á sama afreksstigi og efsta deild, enda sé gætt fyllstu sóttvarna að öðru leyti.