UEFA styrkir verkefni sem tengjast málefnum flóttafólks og hælisleitenda
Aðildarsamböndum UEFA býðst að sækja um styrk vegna verkefna sem tengjast flóttafólki og hælisleitendum. Með sjóðnum, sem settur var á laggirnar árið 2017, eru knattspyrnusambönd og knattspyrnufélög í Evrópu hvött til að starfa með samtökum sem starfa að málefnum flóttamanna og hælisleitenda í sínum löndum og stofna til verkefna sem styðja við samfélagslega aðlögun þeirra. UEFA hvetur sérstaklega til verkefna sem styðja við aðlögun kvenna (fræðsluverkefni eða annað).
Hægt er að sækja um styrk fyrir ný verkefni, eða verkefni sem þegar eru hafin og getur upphæð styrksins numið allt að 50.000 evrum.
Samtök eða aðrir aðilar hérlendis sem þegar starfa að málefnum flóttafólks eða hælisleitenda, og vinna að yfirstandandi verkefnum eða hefðu áhuga á að stofna til nýrra verkefna í samstarfi við KSÍ, eru hvött til að hafa samband við Ómar Smárason, deildarstjóra samskiptadeildar KSÍ (omar@ksi.is).
Opið er fyrir umsóknir til og með 31. janúar 2021 og tilkynnt verður um val á sex verkefnum sem hljóta styrk á vormánuðum 2021.
Valnefnd UEFA, sem skipuð er fulltrúum UEFA og ýmsum sérfræðingum í málefnum flóttafólks og hælisleitenda, mun meta umsóknirnar og velja sex verkefni sem hljóta styrk.