• fim. 03. des. 2020
  • Fræðsla
  • Landslið

Á möguleika á nýsköpunarverðlaunum forseta Íslands

Aðstandendum 13 verkefna sem styrkt voru af Nýsköpunarsjóði námsmanna (NSN) 2020 var á dögunum boðið að kynna verkefni sín fyrir stjórn sjóðsins, en alls fengu um 300 verkefni styrk. Á meðal þessara 13 verkefna, sem eiga þar með möguleika á nýsköpunarverðlaunum forseta Íslands, var „Sálfræðileg hæfnisþjálfun ungra knattspyrnuiðkenda á Íslandi“ sem unnið var fyrir KSÍ af Grími Gunnarssyni, nema í klínískri sálfræði við Háskólann í Reykjavík, en Grímur framkvæmdi sálfræðilegar mælingar á öllum leikmönnum á eldra ári í 3. flokki karla og kvenna, undir handleiðslu íþróttasálfræðinganna Hafrúnar Kristjánsdóttur og Halls Hallssonar. Unnið verður úr þeim gögnum sem söfnuðust í rannsókninni og útbúið fræðsluefni um andlega þáttinn í íþróttum almennt.

Meðal þess sem Grímur gerði var að sinna sálfræðilegum mælingum og vinnustofu U15 úrtakshóps og með þeirri vinnu sýnt hvernig hægt er að nota SoccerLAB til að vinna með niðurstöður sálfræðimælinga sem og verkefnavinnu. Samhliða því skrifaði hann fræðslubók sem snýr að grunnfræðslu um sálfræði í knattspyrnu, sem getur einnig átt erindi til iðkenda annarra íþrótta.

Af þessum 13 verkefnum verða 4-5 verkefni valin og tilnefnd til Nýsköpunarverðlauna forseta Íslands sem afhent verða af forsetanum sjálfum á Bessastöðum 20. janúar 2021.