Ísland á EM í Englandi
Í kvöld varð ljóst að A landslið kvenna verður á meðal þátttökuliða í úrslitakeppni EM 2022 sem fram fer á Englandi sumarið 2022. Íslenska liðið vann eins marks sigur á Ungverjalandi fyrr í dag, en þurfti að bíða niðurstöðu annarra leikja í öðrum riðlum til að fá á hreint hvort liðið kæmist beint í úrslitakeppnina, eða hvort það þyrfti að leika í umspili vorið 2021. Úrslit leikja voru þannig að Ísland er eitt af þremur liðum með bestan árangur í 2. sætið riðlakeppninnar og sá árangur gefur sæti í úrslitakeppninni.
Þetta verður fjórða úrslitakeppni EM í röð hjá A landsliði kvenna, magnaður árangur. Síðustu leikir riðlakeppninnar fara fram í febrúar 2021, umspilsleikirnir í apríl, og úrslitakeppnin sjálf fer svo fram sem fyrr segir á Englandi, dagana 6.-31. júlí 2022.