Ísland mætir Ungverjalandi á þriðjudag
Ísland mætir Ungverjalandi á þriðjudag í lokaleik sínum í riðlakeppni undankeppni EM 2022.
Leikurinn fer fram á Ferenc Szusza Stadion í Búdapest og hefst hann kl. 14:30 að íslenskum tíma. Bein útsending verður frá leiknum á RÚV.
Ljóst er að Ísland endar í öðru sæti riðilsins, en þau þrjú lið sem eru með bestan árangur í öðru sæti riðlakeppninnar komast beint áfram í lokakeppnina. Hin sex fara í umspil um þrjú laus sæti á EM. Ungverjaland er í fjórða sæti riðilsins með sjö stig. Ísland vann fyrri viðureign liðanna 4-1.
Það er því til mikils að vinna fyrir liðið, en með sigri á það fínan möguleika á að tryggja sér sæti beint inn á EM 2022, sem haldið verður á Englandi.