Sigur í Slóvakíu
A landslið kvenna vann í dag 3-1 sigur á Slóvakíu í undankeppni EM. Slóvakía leiddi í hálfleik en íslenska liðið sýndi styrk sinn í seinni hálfleiknum og skoraði þrjú mörk.
Jafnræði var með liðunum í fyrri hálfleik en Slóvakar áttu hættulegri sóknir og skoruðu eina mark hálfleiksins á 25. mínútu. Þar var að verki Maria Mikolajova sem skoraði með skoti rétt utan vítateigs. Íslenska liðið setti mikla pressu að marki heimaliðsins á lokamínútum fyrri hálfleiksins, en Maria Korenciova í markinu var vel á verði og bjargaði m.a. stórglæsilega eftir skalla frá Ingibjörgu Sigurðardóttur.
Síðari hálfleikur var tiltölulega nýbyrjaður þegar rafmagnið á leikvanginum fór og flóðljósin slokknuðu og því þurfti að gera hlé á meðan leyst var úr málinu. Áfram hélt leikurinn eftir nokkurra mínútna töf. Á 61. mínútu átti Agla María Albertsdóttir frábæra sendingu inn fyrir vörn Slóvaka á Sveindísi Jane Jónsdóttur sem renndi boltanum fyrir markið á Berglindi B. Þorvaldsdóttur sem kláraði færið af öryggi. Staðan orðin 1-1.
Á 65. mínútu var brotið á Söru Björk Gunnarsdóttur fyrirliða íslenska liðsins innan vítateigs og vítaspyrna dæmd. Sara fór sjálf á punktinn, Korenciova varði en hafði hreyft sig af línunni og endurtaka þurfti spyrnuna. Nú skoraði fyrirliðinn af miklu öryggi og Ísland komið í forystu. Íslenska liðið var mun sterkari aðilinn í seinni hálfleik og skapaði sér nokkur hættuleg færi. Aftur fékk Ísland vítaspyrnu, að þessu sinni eftir að brotið hafði verið á Elínu Mettu Jensen, og aftur skoraði Sara Björk.
Úrslitin þýða að íslenska liðið er öruggt með 2. sæti riðilsins, en tveir leikir eru eftir í riðlinum og fara þeir báðir fram 1. desember, þegar Ísland mætir Ungverjalandi ytra og Slóvakía tekur á móti Svíþjóð.