• mið. 25. nóv. 2020
  • Agamál
  • Stjórn

Aga- og úrskurðarnefnd hafnar kröfum KR

Aga- og úrskurðarnefnd KSÍ hefur á ný kveðið upp úrskurð í máli nr. 11/2020 KR gegn Stjórn KSÍ. Hefur aga- og úrskurðarnefnd hafnað kröfum knattspyrnudeildar KR í málinu.

Í niðurstöðukafla segir m.a.:

Það er álit aga- og úrskurðarnefndar að stjórn KSÍ hafi með setningu ofangreindrar reglugerðar [Covid-19 reglugerð] verið að bregðast við meiriháttar utanaðkomandi atburðum. Ákvæði reglugerðarinnar lúta að því með hvaða hætti ljúka skuli mótum sem ekki tekst að ljúka vegna Covid-19, þar sem slíkum ákvæðum var ekki til að dreifa í reglugerðarsafni KSÍ. Með vísan til þessa fellst aga- og úrskurðarnefnd á sjónarmið kærða í málinu um að reglugerðin breyti ekki leikjafyrirkomulagi Íslandsmótsins. Samkvæmt því stangast reglugerðin ekki á við lög KSÍ eins og kærandi heldur fram.“

Það er álit aga- og úrskurðarnefndar að fullnægjandi lagagrundvöllur sé fyrir setningu Covid reglugerðarinnar í lögum KSÍ. Með vísan til þessa er þeirri málsástæðu kæranda að stjórn KSÍ hafi verið óheimilt að setja reglugerð um viðmiðanir og sértækar ráðstafanir vegna heimsfaraldurs kórónuveiru 17. júlí 2020, þar sem hún sé andstæð lögum sambandsins og stangist að auki á við aðrar reglugerðir, hafnað.“

Enn fremur segir í niðurstöðukafla m.a.:

Ákvörðun stjórnar var almenn, byggð á þeim reglum sem settar voru í júlí þegar óljóst var hvernig yrði með framhaldið á mótum KSÍ. Ákvörðunin varðaði með einhverjum hætti hagsmuni allra liða í þeim deildum sem ákvörðunin snéri að og snéri þannig ekki að einstökum liðum sérstaklega. Að öllu þessu virtu er það álit aga- og úrskurðarnefndar að ekki hafi verið fyrir hendi þær aðstæður hjá stjórn KSÍ sem valdi því að hún hafi ekki haft heimild til að taka hina kærðu ákvörðun á grundvelli vanhæfis. Málsástæðu kæranda hvað þetta varðar er því hafnað.“

Frestur málsaðila til að áfrýja máli til áfrýjunardómstóls KSÍ eru 3 dagar frá því að úrskurður aga- og úrskurðarnefndar er kveðinn upp og skulu almennir frídagar ekki taldir með.

Úrskurður aga- og úrskurðarnefndar í heild sinni