Aga- og úrskurðarnefnd hafnar kröfum Fram
Aga- og úrskurðarnefnd KSÍ hefur á ný kveðið upp úrskurð í máli nr. 12/2020 Fram gegn Stjórn KSÍ. Hefur aga- og úrskurðarnefnd hafnað kröfum knattspyrnudeildar Fram í málinu.
Í niðurstöðukafla segir m.a.:
„Samkvæmt gögnum málsins liggur fyrir að KSÍ byggði ákvörðun sína á meðaltali stiga og markatölu sem gerði það að verkum að Leikni var veitt sæti í efstu deild á næsta tímabili 2021/2022. Einnig liggur fyrir í gögnum málsins að miðað er við meðaltal stiga í Covid-19 reglugerðinni og voru kærandi og Leiknir jöfn að stigum í öðru og þriðja sæti þegar keppni lauk. Þegar svo háttar til þarf að skera úr um hvort lið telst vera ofar í lokaröðun mótsins."
„Samkvæmt 8. gr. í Covid reglugerð hefur stjórn KSÍ lokaákvörðun um öll þau málefni sem reglugerðin nær ekki sérstaklega til. Samkvæmt reglugerð KSÍ um knattspyrnumót eru ákvæði í 21. gr. um stigakeppni. Samkvæmt 21.3 segir að sigurvegari í stigakeppni sé það lið sem flest stig hlýtur og í 2. sæti er það lið sem hlýtur næst flest stig o.s.frv. Síðan segir að röð liða í stigakeppni ákvarðast nánar samkvæmt a) Fjölda stiga. b) Markamismunur. c) Fjöldi skoraðra marka, o.s.frv.“
Enn fremur segir í niðurstöðukafla m.a.:
„Það er álit aga- og úrskurðarnefndar að ekkert mæli því gegn í þessu máli að stjórn KSÍ beiti ákvæði 21. gr. reglugerðar KSÍ um knattspyrnumót þegar svo háttar til að tvö lið standa jöfn að stigum til þess að skera úr um endanlega röðun liðanna í stigakeppni á grundvelli markatölu. Samkvæmt þessu var stjórn KSÍ bæði rétt og skylt að leysa úr þeirri stöðu sem upp var komin með þessum hætti.“
Frestur málsaðila til að áfrýja máli til áfrýjunardómstóls KSÍ eru 3 dagar frá því að úrskurður aga- og úrskurðarnefndar er kveðinn upp og skulu almennir frídagar ekki taldir með.