UEFA staðfestir U21 karla á EM
Knattspyrnusamband Evrópu (UEFA) hefur nú staðfest við KSÍ að Ísland sé á meðal þeirra 16 þjóða sem eiga lið í úrslitakeppni EM U21 karla. Tveir leikir voru eftir í riðlakeppninni - útileikir Íslands og Svíþjóðar við Armeníu - og hefur áfrýjunardómstóll UEFA nú úrskurðað Íslendingum og Svíum 3-0 sigra í þeim leikjum. Þetta þýðir að Ísland hafnar í 2. sæti riðilsins með 21 stig og verður því á meðal þátttökuþjóða í úrslitakeppninni, sem eitt af fimm liðum með bestan árangur í 2. sæti í riðlakeppninni.
Úrslitakeppnin verður haldin í tveimur hlutum í tveimur löndum - í Ungverjalandi og Slóveníu. Riðlakeppnin fer fram dagana 24.-31. mars 2021 og 8-liða úrslit, undanúrslit og úrslitaleikurinn fara svo fram 31. maí - 6. júní. Dregið verður í riðla fyrir úrslitakeppnina 10. desember næstkomandi.
Mynd með grein: Hafliði Breiðfjörð, Fótbolti.net.