Frábær sigur gegn Írlandi
U21 ára landslið karla vann frábæran 2-1 sigur gegn Írlandi í undankeppni EM 2021, en leikið var ytra.
Það voru Sveinn Aron Guðjohnsen og Valdimar Þór Ingimundarson sem skoruðu mörk Íslands í leiknum.
Ísland var 1-0 yfir í hálfleik, en Sveinn Aron hafði skorað frábært mark á 25. mínútu eftir góða sendingu Jóns Dags Þorsteinssonar. Írar voru meira með boltann í fyrri hálfleik, en íslenska vörnin stóðst pressuna.
Írar byrjuðu síðari hálfleikinn betur, en tókst ekki að skapa sér opin færi. Á 61. mínútu komu þeir Þórir Jóhann Helgason og Ísak Bergmann Jóhannesson inn á fyrir Willum Þór Willumsson og Andra Fannar Baldursson. Ísland spilaði vel næstu tíu mínútur, héldu boltanum ágætlega og var Ísak Bergmann ekki langt frá því að skora en skot hans var varið.
Á 72. mínútu komu þeir Valdimar Þór Ingimundarson og Brynjólfur Andersen Willumsson inn á fyrir Svein Aron Guðjohnsen og Kolbein Birgir Finnsson.
Það var svo þremur mínútum síðar sem Írar jöfnuðu leikinn, en þar var að verki Joshua Kayode. Staðan orðin 1-1. Ísland komst vel inn í leikinn aftur eftir markið og var Jón Dagur nálægt því að skora, en skot hans var varið.
Þegar þrjár mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma misstu Írar leikmann útaf með rautt spjald eftir ljóta tæklingu. Það var svo á 93. mínútu sem Valdimar Þór Ingimundarson skoraði sigurmarkið eftir sendingu Alfonsar Sampsted. Glæsilegur 2-1 sigur staðreynd í Dublin og möguleikinn á sæti á EM 2021 ennþá til staðar.