KÞÍ 50 ára
Knattspyrnuþjálfarafélag Íslands (KÞÍ) fagnar 50 ára afmæli föstudaginn 13. nóvember.
KÞÍ var stofnað árið 1970 en það var Albert Guðmundsson, þáverandi formaður Knattspyrnusambands Íslands, sem var helsti hvatamaður þess.
KÞÍ sinnir fræðslumálum þjálfara eftir fremsta megni og stendur árlega fyrir fræðsluviðburðum, ýmist sjálfstætt eða í samvinnu við KSÍ. Þá hefur stjórn félagsins veitt félagsmönnum sínum styrki til endurmenntunar erlendis. Önnur verkefni stjórnar snúa meðal annars að aðstoð við félagsmenn, en oft lúta slík mál að starfslokum þjálfara þar sem misvel er staðið að málum hjá félögum.
Til stóð að fagna afmælisárinu 2020 með ýmsum viðburðum og ráðstefnuhaldi en það hefur verið óframkvæmanlegt vegna aðstæðna eins og kunnugt er. Í tilefni stórafmælisins gefur KÞÍ út glæsilegt afmælisrit, sem kemur út bæði rafrænt og á prenti og inniheldur ýmsar áhugaverðar greinar og viðtöl við þjálfara.
KÞÍ hefur einnig kynnt nýja og endurbætta heimasíðu félagsins, en hægt er að fara inn á hana hér að neðan. Á sama tíma kynnir félagið nýtt merki þess.