1-2 tap gegn Ítalíu
Mynd - fotbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
U21 ára landslið karla tapaði 1-2 gegn Ítalíu í undankeppni EM 2021. Willum Þór Willumsson skoraði mark Íslands.
Leikurinn var mjög jafn fyrstu tíu mínúturnar, en hvorugu liðinu tókst að skapa sér færi. Fyrsta færi Íslands kom eftir 20 mínútna leik. Sveinn Aron Guðjohnsen skallaði þá boltann yfir markið eftir sendingu Harðar Inga Gunnarssonar. Jafnræði var áfram á milli liðanna, en á 35. mínútu skoraði Ítalía fyrsta mark leiksins. Þar var að verki Tommaso Pobega, boltinn datt fyrir hann eftir fyrigjöf og Pobega kom honum örugglega í netið.
Fimm mínútum síðar var Gianluca Scamacca nálægt því að tvöfalda forystu Ítala, en honum tókst ekki að ná til fyrirgjafar Riccardo Sottil. Staðan því 0-1 fyrir Ítalíu í hálfleik.
Síðari hálfleikur hófst á svipaðan hátt og sá fyrri, jafnfræði var með liðunum og áttu þau erfitt með að skapa sér opin færi. Það var svo á 63. mínútu sem Ísland jafnaði leikinn. Markvörður Ítala var í vandræðum með langt innkast Harðar Inga sem endar með því að Willum Þór Willumsson kemur boltanum í netið. Staðan orðin jöfn.
Ísland gerði sína fyrstu skiptingu á 72. mínútu þegar Brynjólfur Andersen Willumsson kom inn á fyrir Svein Aron Guðjohnsen. Stuttu síðar mátti litlu muna að Ítalir kæmust í færi, en eftir darraðadans á teignum tókst strákunum að hreinsa boltann frá. Á 82. mínútu komu þeir Kolbeinn Birgir Finnsson og Þórir Jóhann Helgason inn á fyrir Ísak Bergmann Jóhannesson og Andra Fannar Baldursson.
Ítalía tók forystuna aftur þegar aðeins tvær mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma og var það Tommaso Pobega sem skoraði annað mark sitt í leiknum. Valdimar Þór Ingimundarson kom inn á undir lok leiks fyrir Alex Þór Hauksson. Leiknum lauk því með 1-2 sigri Ítalíu.