Nýjungar hjá FIFA
Á undanförnum vikum hefur Alþjóða knattspyrnusambandið (FIFA) gefið út mikið af nýju efni sem ætlað er að skýra frekar reglur sem gilda á hinum ýmsu sviðum FIFA. Er það í samræmi við skuldbindingu FIFA til að stuðla að auknu gagnsæi og upplýsingagjöf um innri starfsemi sína.
Félagaskipti leikmanna yngri en 18 ára á milli landa
Frá árinu 2001 hafa reglugerðir FIFA bannað félagaskipti leikmanna sem eru yngri en 18 ára á milli landa. Aðeins fáeinar undanþágur gilda frá þeirri reglu, sem hafa ekki í öllum tilvikum þótt nægilega skýrar. Hefur FIFA því gefið út sérstakan leiðarvísi (Guide to Submitting a Minor Application) með það að markmiði að fræða hagsmunaaðila í knattspyrnu og almenning um ferli og kröfur til gagnaöflunar við félagaskipti leikmanna yngri en 18 ára á milli landa. Leiðarvísirinn er þarfur sérstaklega m.t.t. nýrra undantekninga, mikils fjölda mála sem berast til FIFA af þessu tagi og vaxandi flækjustigs. Þá þykir FIFA nauðsynlegt að veita skýringar á viðeigandi ákvæðum reglugerðarinnar fyrir hagsmunaðila í knattspyrnu.
Leiðarvísir FIFA vegna félagaskipta leikmanna yngri en 18 ára á milli landa
Bann við áhrifum þriðja aðila á félög (TPI) og bann við eignarhaldi þriðja aðila á leikmönnum (TPO)
Þessi leiðarvísir hefur verið þróaður af FIFA með það að markmiði að upplýsa hagsmunaaðila í knattspyrnu og almenning um hvernig FIFA túlkar og beitir ákvæðum reglugerða sinna um bann við áhrifum þriðja aðila á félög (Third-party influence on clubs - TPI) og bann við eignarhaldi þriðja aðila á efnahagslegum réttindum leikmanna (Third-party ownership of players‘ economic rights - TPO). Reglur þessar (18bis og 18ter) voru innleiddar í reglugerð FIFA fyrst og fremst til að vernda félagaskiptakerfi knattspyrnunnar. Enn fremur voru reglurnar samþykktar til að koma í veg fyrir starfshætti sem hafa bein áhrif á heiðarleika félagaskiptakerfisins og knattspyrnunnar í heild og til að viðhalda stöðugleika í samningum á milli leikmanna og félaga. Leiðarvísinum er ætlað að skýra gildissvið reglnanna ítarlega með tilliti til dómaframkvæmdar hjá FIFA og CAS og þá er þar að finna hagnýtar ráðleggingar fyrir hagsmunaðila (sérstaklega félög) í samningsgerð við leikmenn eða við önnur félög vegna félagaskipta.
Leiðarvísir FIFA um áhrif og eignarhald þriðju aðila
Handbók um lög og reglugerðir FIFA
FIFA hefur gefið út ítarlegt rit þar sem hægt er að nálgast FIFA lögin, nýjustu FIFA reglugerðirnar og viðeigandi dreifibréf sem FIFA hefur sent frá sér. Handbókin, sem verður uppfærð árlega, var búin til svo hægt sé að nálgast og leita á einum stað að hvers konar heimild í lögum eða reglugerðum FIFA.
Handbók um lög og reglugerðir FIFA
Fleiri rit sem gefin hafa verið út eru:
- Skýrsla um störf aganefndar FIFA, siðanefndar FIFA og störf FIFA í lyfjamálum (Frétt á heimasíðu FIFA)
- Skýrsla um störf nefndar FIFA um stöðu leikmanna – Player‘s status Committee (Frétt á heimasíðu FIFA)
FIFA heldur utan um viðeigandi fréttir og útgáfu laga- og reglugerða á www.legal.fifa.com.