Umfangsmiklar stuðningsaðgerðir við íþróttastarf í undirbúningi
Mennta- og menningarmálaráðuneytið hefur sent frá sér fréttatilkynningu um umfangsmiklar stuðningsaðgerðir við íþróttastarf í landinu. Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra og Ásmundur Daði Einarsson félags- og barnamálaráðherra kynntu fyrirhugaðar aðgerðir fyrir forystu íþróttahreyfingarinnar á fjarfundi á sunnudagsmorgunn. Aðgerðunum er ætlað að koma til móts við íþrótta- og æskulýðsfélög landsins vegna þeirra röskunar sem Covid-19 faraldurinn hefur haft á starf þeirra.
Í aðgerðum stjórnvalda verður stefnt að því að útvíkka úrræði Vinnumálastofnunar þannig að tryggt verði að í þeim tilvikum sem íþróttafélagi eða samstarfsaðilum ÍSÍ er gert að láta af starfsemi sinni vegna sóttvarna geti félagið sótt um styrki vegna launagreiðslna til starfsmanna sem ekki geta sinnt starfi sínu á því tímabili sem sóttvarnaaðgerðir standa yfir. Gert er ráð fyrir því að styrkirnir nemi sömu fjárhæðum og kveðið er á um í lögum sóttkvíagreiðslur.
Þá verður íþrótta- og æskulýðsfélögum, ásamt sambandsaðilum ÍSÍ, gert kleift að sækja um sérstaka styrki vegna tekjufalls á tímabilinu 1. júní sl. til 1. október sl. Einnig verður þessum aðilum gert kleift að sækja um styrki vegna verktakakostnaðar frá 1. október sl. og þar til starfsemi hreyfingarinnar kemst í eðlilegt horf. Orsakir þessa tekjufalls og verktakagreiðslna þurfa að hafa verið vegna sóttvarna á því tímabili sem sóttvarnaaðgerðir standa yfir.
Guðni Bergsson formaður KSÍ: "Með þessum aðgerðum er loks komið til móts við þær athugasemdir sem KSÍ hafði gert gagnvart þeirri staðreynd að launþega- og verktakaúrræði vinnumálastofnunnar voru ekki að nýtast íþróttahreyfingunni. Nú verður þetta fært til betri vegar og einnig verður hægt að sækja um styrki vegna tekjufalls frá 1. júní - 1. október hjá íþróttafélögum og sambandsaðilum innan ÍSÍ. Þessum aðgerðum er fagnað og viðkomandi ráðherrum og stjórnvöldum þakkað fyrir. Þessir fjármunir og styrkir munu koma sér vel í þeirri baráttu sem framundan er við tryggja það mikilvæga íþróttastarf sem fram fer hér á landi“.
ÍSÍ mun sjá um umsýslu aðgerðarinnar. Endanlegar útfærslur á tillögunum verða unnar í samstarfi við íþróttahreyfinguna og gert er ráð fyrir að útfærslan liggi fyrir eigi síðar en 10. nóvember.
Frétt á vef Stjórnarráðsins